Skógrækt í Reykhúsaskógi
Bændaskógrækt hófst í Reykhúsum árið 1983 og rann svo inn í Norðurlandsskóga. Plantað var samkvæmt áætlun skógarráðgjafa, langmest lerki fyrst og svo furu eftir ástandi og gæðum jarðvegs og gróðurs. Engu birki var plantað þar sem nokkuð var um sjálfsáið birki sem fór að verða áberandi eftir að landið var friðað fyrir sauðfjárbeit. Hér á eftir fer stuttur pistill um tilraunir okkar Páls Ingvarssonar með jólatrjárækt.
Rauðgreni úr skógrækt
2003 og 2004 var plantað 500 rauðgreniplöntum að mestu í þokkalega frjósamt land norðan við lerkilund. Norðan við grenireitinn var að vaxa upp sjálfsáið birki á stangli. Lifun plantnanna var góð og þær tóku fljótt við sér en seinna í rýrari jarðvegi. Eftir 3 ár var gras reitt frá plöntum og gefinn áburður. Á næstu árum var farið einu sinni eða tvisvar og gras troðið niður í kringum plönturnar. Síðan var ekki sinnt um trén fyrr en 2015. Þá var farið um reitinn og greinabil jafnað með greinagreiðu þar sem þess þurfti. 2016 var klipptur leggur á tré sem voru orðin 90-100 cm há eða meira, greinahorn jöfnuð með greiðum og toppar lagfærðir með toppspelkum. Í september voru álitleg tré mæld og flokkuð í 3 stærðarflokka og fólki boðið að koma og velja sér tré í byrjun október. Stærð trjánna mælum við frá jörð að efsta greinakransi. Trén merkir fólk sér með númeruðum miða úr vatnsheldum pappír og við skráum hver á hvaða númer. Um miðjan desember voru trén höggvin og ekið til kaupenda og með fylgdu leiðbeiningar um meðferð. Heimboðið í skóginn auglýsum við á facebooksíðu skógarins, í auglýsingablaði Eyjafjarðarsveitar og höfum einnig hengt upp auglýsingu á stöku stað í nágrenninu. Eftir þessa reynslu af því að bjóða fólki heim að hausti höfum við haldið því áfram og verið búin að velja og stærðarmerkja þau tré sem eru til sölu á bilinu 1,25 - 2,25m. Við veljum tré sem standast útlitskröfur um jafna greinasetningu og hæfilegan topp og reynum að taka tré sem eru komin í of mikið nábýli, þannig að þetta verði um leið grisjun. Þar sem þetta eru ekki mörg tré höfum við látið nægja að merkja 30 til 40 tré árlega til að velja úr en aldrei selt öll trén. Við höfum valið tré fyrir kaupendur sem ekki hafa tök á að koma og þeir tiltaka þá hæð og hvort þeir vilji umfangsmikið eða grannvaxið tré. Í fyrstu gekk vel að sækja trén en síðustu tveir vetur hafa verið okkur erfiðir og þá sérstaklega í vetur þar sem mikið snjóaði rétt áður en við sóttum trén og þurftum við að moka okkur meter eða meira niður á trén! En við höfum viljað halda okkur við að saga trén ekki fyrr en eftir 10. desember til þess að barrheldnin verði góð. Við höfum sem sagt verið að reyna að vinna markað fyrir rauðgreni með því að hafa góð tré sem halda barrinu en við urðum vör við það að margir höfðu ótrú á rauðgreni. Var það vegna gamallar reynslu þar sem barrið entist ekki jóladaginn á þurrum trjánum sem höfðu verið höggvin of löngu fyrir jól.
Tilraun með ræktun jólatrjáa á akri
Vorið 2012 var plantað í tilraunaskyni í lítinn reit í jaðri á gömlu túni sem hafði verið úðaður með plöntueitri og plægður árið áður. Við settum niður 2ja ára rauðgreni (70), fjallaþin (80) og blágreni (48), samtals tæplega 200 plöntur. Áburður var ekki notaður þar sem jarðvegur var mjög frjór. Trjákurl var lagt með plöntunum og í langvarandi þurrkatíð á miðju sumri var vökvað. Góð lifun var árið eftir. Sumarið 2014 var gras farið að vaxa upp og var þá reitt frá plöntunum og slegið með vélorfi milli raða tvisvar sinnum yfir sumarið og útflattar mjólkurfernur lagðar kringum trén til að verja þær fyrir grasvexti. Sumrin 2015 og 2016 var slegið tvisvar milli raða og farið einu sinni hvort sumar og reitt frá plöntunum. Fylgst var með toppum, sérstaklega á fjallaþininum. Toppbrum opnuðust ekki á nærri öllum fjallaþininum og hliðarbrum kepptust um að verða toppar og þurfti að velja topp til að rækta áfram. Blágrenið virtist hálfkirkingslegt en rauðgrenið var kröftugt. 2017 var liðið fram í júnílok þegar farið var að huga að plöntunum. Þá var svo mikill grasvöxtur að varla sást í fjallaþininn. Slegið var á milli raða með vélorfi og grasið klippt næst plöntunum og settar nýjar mjólkurfernur þar sem þess þurfti. Topparnir og barrið á fjallaþininum leit mun betur út en næstu tvö ár á undan. 2018 leit fjallaþinurinn nokkuð vel út, þ.e. toppar brumuðu flestir vel og um haustið voru falleg toppbrum á honum svo að nú héldum við að hann væri kominn á beinu brautina. En viti menn, vorið eftir, 2019, var ekki nema u.þ.b. helmingurinn af brumunum sem opnaðist. Hin virtust þorna eða kala. Hins vegar var blágrenið búið að taka við sér, bústið og fallegt og rauðgrenið er að nálgast að sölustærð, 1,20 m að meðaltali í haust.
Árið 2017 og 2018 var bætt í tilraunina þegar við plöntuðum rauðgreni og blágreni í nýjan reit sem var í gömlum kartöflugarði. Þar var ekki plægt, gisið gras, mest húsapuntur, var troðið niður og útflattar mjólkurfernur settar í kringum hverja plöntu og gefin matskeið af blákorni, samtals voru þetta 200 plöntur. Einnig gróðursettum við 2017 smávegis af fjallaþin inn í gisna bletti í lerkiskóginn í námunda við rauðgrenireitinn og í stað trjáa sem höfðu verið höggvin sem jólatré árin á undan. Sá fjallaþinur virðist ekki kala í toppinn líkt og sá sem er á „akrinum”.
Hvað höfum við lært?
Nokkur atriði má tína til:
[if !supportLists]1. [endif]Fjallaþinur er dyntóttur og virðist ekki þola veruna á akrinum þó að trjágróður veiti skjól fyrir vindi úr öllum áttum.
[if !supportLists]2. [endif]Til að fá sem flest fallega vaxin jólatré er hægt að móta vöxt með greinagreiðum eða toppspelkum þegar þess þarf. Eitt vaxtartímabil nægir til þess.
[if !supportLists]3. [endif]Vinna við að slá grasvöxt þegar plantað er í plægt tún er mikil (nema menn vilji nota því meira eitur). Ef rækta á jólatré í stórum stíl án eiturs er nauðsynlegt að útvega sér græjur sem hægt er keyra á milli raðanna og slá grasið áður en það verður óviðráðanlegt.
[if !supportLists]4. [endif]Rauðgreni vex vel og blágreni lofar góðu á akrinum. Rauðgrenið þarf sennilega nær helmingi styttri vaxtartíma á akri (með umhirðu) til að verða jólatré en þegar plantað er í úthaga.
[if !supportLists]5. [endif]Snjór getur hamlað verulega uppskerustörfum! Mikilvægt er að kanna hvernig best er að geyma höggvin tré svo að þau þorni ekki, þannig að hægt væri að ná í þau ca. mánuði fyrir jól.
[if !supportLists]6. [endif]Það er gaman að fá fólk í heimsókn í skóginn í október til að velja jólatré og þiggja ketilkaffi og bæði kaupendur og við komumst í jólaskap þegar við mætum hjá þeim með jólatrén í kerrunni vikunni fyrir jól.
Anna Guðmundsdóttir, skógarbóndi í Reykhúsum