Aðalfundur LSE 2010

PDF

Ársreikningur 2009

Þrettándi aðalfundur Landssamtaka skógareigenda

haldinn í Reykholti 8. og 9. október 2010

Dagskrá fundarins:

Föstudagur 8. október

Kl. 14:00 Tækjasýning – ýmis tæki og tól til skógræktar.

Kl. 16:00 Fundur settur í Reykholti.

Kl. 16:05 Kosnir starfsmenn fundarins.

Kl. 16:10 Skýrsla stjórnar.

Kl. 16:40 Ávörp gesta

Kl. 17:00 Umræður um skýrslu stjórnar

Erindi

Kl. 17:20 Endurskoðun landshlutaverkefnanna – Valgerður Jónsdóttir

Kl. 17:40 Efniviður úr íslenskum skógum til blómaskreytinga: vannýtt aðlind

- Steinar Björgvinsson

Kl. 18:00 Aðrar skógarnytjar – Björn Bjarndal Jónsson

Kl. 18:20 Mál lögð fyrir fundinn. Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.

Kl. 18:40 Fundi frestað. Nefndir hefja störf.

Kl. 19:30 Kvöldmatur.

Kl. 20:30 Framhald nefndarstarfa.

Kl. 21:00 Menning og saga Reykholts. Ætlað mökum fundarmanna og öðrum fundargestum sem hafa lokið nefndarstörfum.

Laugardagur 9. október

Kl. 08:00 Morgunverður.

Kl. 09:00 Nefndir skila áliti.

Kl. 09:45 Kaffi.

Kl. 10:30 Nefndir skila áliti, frh.

Kl. 11:15 Kosningar:

Tveir menn í stjórn,

þrír menn í varastjórn,

tveir skoðunarmenn

Kl. 11:30 Önnur mál.

Kl. 12:45 Fundarlok.

Kl. 12:45 Hádegismatur.

Kl. 14:00 Ferð í Skorradal - skógarskoðun

Fararstjórn og leiðsögn: Birgir Hauksson

Kl. 17:30 Komið í Reykholt.

Kl. 19:00 Fordrykkur.

Kl. 19:30 Árshátíð skógarbænda.

Formaður Félags skógarbænda á Vesturlandi, Bergþóra Jónsdóttir, bauð gesti velkomna í Reykholt og fór yfir praktísk atriði varðandi fundinn og fundaraðstöðuna.

1. Fundur settur.

Formaður LSE, Edda Kr. Björnsdóttir, setti fund og bauð gesti velkomna.

2. Kosnir starfsmenn fundarins.

Starfsmenn fundarins voru kjörnir;

Guðbrandur Brynjúlfsson og Guðmundur Sigurðsson fundarstjórar, Freyja Gunnarsdóttir fundarritari og henni til aðstoðar Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Þórhallur Runólfsson.

Fundarstjóri bauð menn velkomna og gengið var til dagskrár.

3. Skýrsla stjórnar.

Edda Kr. Björnsdóttir formaður LSE flutti skýrslu stjórnar og fór yfir starf samtakanna frá síðasta aðalfundi.

Þórarinn Svavarsson gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningum samtakanna árið 2009.

Niðurstöður rekstrarreiknings;

Rekstrartekjur 8.435.579

Rekstrargjöld 7.028.050

Rekstrarhagnaður 1.407.529

Niðurstöður efnahagsreiknings;

Eignir 3.772.117

Eigið fé 3.761.457

Skuldir 10.660

Eigið fé og skuldir 3.772.117

Reikningarnir bornir upp og samþykktir.

4. Ávörp gesta

Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn og lýsti ánægju sinni með að vera staddur meðal skógarbænda á aðalfundi þeirra. Sagði hann að með tilkomu skógræktarverkefnanna fyrir 20 árum hafi orðið straumhvörf í skógrækt. Sagði ráðherra að uppbygging verkefnanna hefði verið gerð í samvinnu við bændur og reynt að byggja nytjaskógræktina upp eins og hverja aðra búgrein.

Nú sé komin fullvissa um að markmið um raunverulega nytjaskóga getur náðst. Á næstu 100 árum, eðlilegri lotulengd skógar, muni verða til mikið magn af viði við grisjun og lokahögg þegar þar að kemur. Fjöldi starfa hafa skapast í kringum bændaskógaverkefnin, skógurinn stækkar og verkefnin treysti byggð í landinu.

Úrtöluraddir hafa heyrst en þær séu settar fram af vanþekkingu á verkefnunum og öfund.

Undanfarna mánuði hefur verið starfandi nefnd til að vinna að stefnumörkin í nytjaskógrækt og hefur hún lokið störfum en ráðherra hefur ekki unnist tími til að kynna sér lokaskýrslu nefndarinnar ítarlega.

Fáein atriði úr skýrslunni sem ráðherra drap á voru; aukinn almennur skilningur sé á jákvæðum áhrifum skóga, samdráttur er í fjármagni til verkefnanna, áratugareynsla sé komin af verkefnunum en enn má bæta framkvæmdina.

Sagði ráðherra að í vetur yrði Alþingi að vinna langtímaáætlun með hliðsjón af skýrslunni. Rekstur verkefnanna þarfnast endurskoðunar, stjórnir þeirra eru umboðlausar og sagðist ráðherra munu íhuga hvernig skal standa að skipun nýrra stjórna. Sagði hann enga umbyltingu framundan en sjálfsagt væri að fara yfir og skoða skipulag verkefnanna. Hvernig á að vinna til nýrrar framtíðar? Ráðherra leitar eftir samstarfi við LSE og framkvæmdaaðila heima í héruðum við þessa endurskoðun s.s. varðandi samþættingu verkefnanna.

Stærsti árangurinn í bændaskógrækt sé drifkraftur fólksins heima í héruðum. Niðurskurður sé óhjákvæmilegur og bitni því miður á því en ráðherra telur skógrækt eiga mikla framtíð fyrir sér. Horfir til skipulagsbreytinga á verkefnunum í nánu samráði við bændur og forystufólk þeirra.

Þó alls staðar sé hægt að rækta skóg eru þó skilyrði mismunandi, hvar á að rækta skóg og á hvaða tegund skógræktar á að leggja mesta áherslu á miðað við aðstæður?

Þá nefndi ráðherra kolefnismál sem munu hafa áhrif á þróun skógræktarmála og þau gæti orðið til þess að auka fjármagn til skógræktar.

Bændaskógrækt er landbúnaðarmál og á að vistast hjá landbúnaðarráðuneytinu.

Jón Loftsson skógræktarstjóri ávarpaði fundinn og sagði að á þessum tímamótum fögnum við því að LSE er 13 ára og 20 ár liðin frá því að fyrsta verkefnið tók til starfa og Skógrækt ríkisins sé 103 ára. Það hafi tekið rúmlega 80 ár áður en hafist var handa að alvöru við að endurheimta skógana.

Sumri væri tekið að halla en að baki sé eitt besta sumar sem um getur í trjárækt. Því er ekki að neita að niðurskurður hefur bitnað harkalega á skógræktarstarfi, rannsóknum, gróðrarstöðvum og framkvæmdum bænda.

Hrunfjárlögin nýframlögðu eru sögð forgangsraða vitlaust, 300 þúsund manna þjóð geti ekki eytt 400 milljónum í skógrækt er greint frá í fréttum núna en erum við að forgangsraða rétt eða rangt? Skógrækt getur hjálpað í ,,næstu” kreppu. Ef hún væri ekki hvar stæðum við þá? Margt hefur áunnist og skógarnir eru nú þegar nýttir s.s. til spónaframleiðslu og iðnviðar, sparar þar með gjaldeyri vegna innflutnings.

Jón sagði frá störfum nefndar undir sinni forystu sem hefur verið að störfum en hún fjallar um framtíðarstefnumörkun í skógrækt í landinu; Skógar og skógrækt –stefna. Nefndin hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skógar framtíðarinnar eru afleiðing framkvæmda nútímans. Skýrsla nefndarinnar hefur verið send víða til umsagnar og í lok mánaðarins fer nefndin yfir allar framkomnar ábendingar og athugasemdir og í framhaldinu er hægt að marka stefnuna.

Önnur nefnd hefur verið að störfum, Nytjaskóganefndin svokallaða, sem ráðherra hafi m.a. rætt um í erindi sínu. Með tilkomu verkefnanna urðu straumhvörf í skógrækt í landinu, fram til stofnunar þeirra byggði skógrækt í landinu aðallega á vinnu Sr, SÍ og sjálfboðaliða. Í þessari kerfisbreytingu gafst bændum kostur á að fara út í skógrækt sem búgrein og hefur stofnun þeirra án efa treyst búsetu í byggðum landsins.

Stiklaði Jón yfir nokkra þætti úr skýrslu nefndarinnar; að vel hafi tekist til með tilkomu verkefnanna, ekki bara varðandi skógræktarframkvæmdirnar sjálfar heldur einnig í afleiddri þjónustu og verslun, margvísleg félagsleg áhrif sem og mótvægi gegn gróðurhúsaáhrifum.

En enn má bæta og gera betur og í lokin hvatti skógræktarstjóri bændur til að standa vörð um störf verkefnanna þar sem skógrækt hafi margfaldast með tilkomu þeirra.

Björgvin Örn Eggertsson frá Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands ávarpaði fundinn. Björgvin er verkefnisstjóri Grænna skóga sem hófst 2001 en úr þeirri námskeiðsröð hafa 150 skógarbændur útskrifast og enn fleiri setið námskeiðin þar sem ekki hafi allir úrskrifast formlega.

Upp úr Grænni skógum I spruttu Grænni skógar II þar sem meira var farið í umhirðu skógarins. Eins og GS I er um þriggja ára nám að ræða í námskeiðaformi. Búið að keyra GS II einu sinni fyrir austan og nú í haust hófst slík röð á Suður og Vesturlandi. Búið er að auka við efnið og stefnt er á samstarf við erlenda aðila.

Björgvin fór einnig yfir önnur námskeið Endurmenntunardeildarinnar sem mörg passa skógarbændum en námskeiðin eru um 100 á ári af ýmsum gerðum og fara fram víða um land.

Árangur af námskeiðunum er góður og segir Björgvin starfsmenn skógræktarverkefnanna svo sannarlega verða vara við það að skógarbændur séu búnir að sækja sér þekkingu sem bætir gæði og árangur í skógrækt.

Sagði Björgvin frá námskeiði sem átti að prufa í fyrra um gamla traktora en það sló algjörlega í gegn og nú sjöunda traktorsnámskeiðið að fara af stað.

Einnig var ákveðið að prófa torfhleðslunámskeið sem einnig sló í gegn og nú er fimmta námskeiðið að fara í gang.

Björgvin flutti kveðjur rektors Lbhí, Ágústar Sigurðssonar og prófessors Bjarna Diðriks Jónssonar sem stýrir skógfræðibraut skólans. Sagði Björgvin skólann vilja halda áfram samvinnu við LSE og bændur.

5. Umræður um skýrslu stjórnar

Björn Bj. Jónsson framkvæmdastjóri LSE sagði formanninn, Eddu, hafa farið vel í gegnum störf LSE í skýrslu sinni. Sagðist líka ánægður með starf skógarbændafélaganna. Taldi teikn á lofti um að starfið í félögunum væri vel virkt og sæist það vel í fundarsókn.

Björn sagðist vera glaður í bragði, skógurinn aldrei vaxið eins mikið og á þessu ári. Mjög sáttur við að hafa fengið að taka þátt í störfum landshlutaverkefnis. Björn fullyrti að ekkert verkefni á vegum landbúnaðarráðuneytis hefði heppnast eins vel og landshlutaverkefnin og þá ekki síst varðandi samvinnu þéttbýlis og dreifbýlis.

Niðurskurður er ekki vandamál heldur verkefni til að takast á við og að lokum hvatti hann fólk til að tjá sig.

Björn Ármann Ólafsson kom upp til að lýsa ánægju sinni með skýrslu stjórnar. Sagði samt mikið starf framundan, skógrækt væri á viðkvæmu stigi en lýsti jafnframt ánægju sinni með orð landbúnaðarráðherra um stuðning við nytjaskógrækt.

Það sem skógarbændur ætla að gera fyrir þjóðina er að rækta skóg til að nýta hér á landi sem er ekki lítið til að geta gripið til þegar illa árar.

Sagði skógrækt vera framtíð okkar og að henni yrði að standa vel að.

Sigvaldi Ásgeirsson sagðist gleðjast yfir góðri mætingu. Benti á að kirkjan í Reykholti væri nýbúin að leggja til 200 hektara undir skóg. Varðandi störf LSE vildi hann víkja að einu máli en það væri skipulagsmál sveitarfélaga en þar dúkkuðu reglulega upp ,,draugar” sem þyrfti að kveða niður. Hvetur LSE, félögin, SR og LHV að leggjast á eitt að vinda ofan af þeirri vitleysu Umhverfisstofnunar að skógrækt sé óheimil nær ár og vatnsbökkum en 30 metra sem hann tók sem dæmi um vitleysuna en komið væri fram að skógrækt fram á bakka væri ákaflega æskileg. Þessu þarf að vinda ofan af og nokkrum fleiri ,,draugum”.

Björn Jónsson þakkaði Sigvalda innleggið og sagði þetta ekki það eina sem á þyrfti að taka á varðandi skipulag, sagði þetta góða ábendingu. Sagði að stundum virtist sem þeir sem vinna við skipulag hafi ekki nægilega yfirsýn. Sagði LSE eiga eftir vinna að þessum málum.

6. Erindi

Endurskoðun landshlutaverkefnanna – Valgerður Jónsdóttir

Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga flutti erindi um endurskoðun landshlutaverkefnanna útfrá skýrslu nefndar um stefnumörkun í nytjaskógrækt en Valgerður sat í nefndinni fyrir hönd skógaræktarverkefnanna. Hlutverk nefndarinnar, sem hefur verið kölluð Jóns Birgis nefndin (JB-nefndin), var að leggja mat á hvernig til hefur tekist með framkvæmd landshlutaverkefnanna til þessa með hliðsjón af umfangi gróðursetningar og árangri.

Eins og áður hefur komið fram í máli manna á fundinum hafa tvær nefndir verið að störfum er varða stefnumörkun í skógrækt, kallaðar Jóns Loftssonar nefndin (JL-nefndin) og Jóns Birgis nefndin.

Valgerður fór yfir muninn á þessum tveimur nefndum en hann er sá helstur að skýrsla með niðurstöðum JL-nefndarinnar fer til ríkisstjórnar og mun í framhaldinu móta stefnu í skógræktarmálum landsins en skýrsla með niðurstöðum JB-nefndarinnar fer til ráðherra sem vinnur svo útfrá henni eins.

Fór yfir störf JB-nefndarinnar og ólík sjónarmið nefndarmanna, nefndi t.d. verkfræðinga sem vildu reikna, m.a. var reiknað út áætlað magn afurða úr skóginumþ

Í upphafi var ákveðið að skýrslan yrði hörð, ekkert hallelúja, miklum upplýsingum safnað og gott yrði að hafa þær upp á framtíðina að gera.

Nefndarmenn voru 10. Sagðist Valgerður halda að aldrei áður í sögu skógræktar hafi verið reynt að hafa þessa tíu aðila saman í herbergi.

Nefndin heimsótti öll ve