top of page

Líffjölbreytni á alþjóðlegum degi skóga


Myndband á Youtube

Alþjóðlegur dagur skóga 21. mars 2020 er helgaður skógum og líffjölbreytni. Skógræktin hefur gefið út stutt myndband í tilefni dagsins og sömuleiðis hefur skógasvið FAO sent frá sér myndbönd og fleira efni til að minna á mikilvægi skóga fyrir líffjölbreytni.

Líffjölbreytni er einkenni skóga. Skógar geyma fjölbreytilegustu vistkerfi jarðarinnar. Skógar eru bústaðir fjölda dýra, plantna og sveppa. Skógar eru ómissandi verðmæti og eitt af mikilvægustu verkefnum mannkyns er að útbreiða skóga á ný.

Skógur eykur fuglalif og fóstrar margvíslega flóru, fánu og fungu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonEn hvað er líffjölbreytni skóga? Það eru tegundir lífveranna sem búa þar, erfðafræðileg fjölbreytni hverrar tegundar, breytileiki milli ólíkra skóga, og breytingar í tímans rás. Breytingarnar sem verða á tilteknu tímabili köllum við framvindu. Framvinda er eitt mikilvægasta ferli náttúrunnar. Tegundir hverfa og nýjar koma í staðinn. Hlutföll tegunda breytast. Ásýnd skógarins breytist. Þá skiptir litlu hvernig skógurinn varð til í upphafi eða hvaða trjátegundir eru ríkjandi. Skógar innfluttra trjátegunda verða heimili margra þeirra tegunda sem lifað hafa í birkiskógunum.

Tegundasamsetning dýra, plantna og sveppa er einstök fyrir hvern skóg. Við sjáum að skógrækt og aukin útbreiðsla skóga stuðlar að aukinni líffjölbreytni. Það er líka markmið allra jarðarbúa. Á Íslandi leiðir skógrækt til stóraukinnar fjölbreytni vistkerfa. Skógar úa og grúa af skordýralífi og fuglalífi. Þeir fóstra margvíslegan botngróður og ofan í moldinni er ríkulegt örverulif, smádýralíf og sveppasamfélög sem gegna hlutverki í skóginum og langt út fyrir hann. Hlynur Gauti Sigurðsson gerði myndbandið og þulur er Pétur Halldórsson.

Texti: Pétur Halldórsson

bottom of page