top of page

Skortur á lerkifræi


Skortur á lerkifræi​

Nú hefur það gerst sem við höfum lengi óttast að skortur er á lerkifræi frá Finnlandi. Það sem fæst á þessu vori dugar aðeins til að framleiða um 80.000 plöntur til afhendingar árið 2021. Eitthvað verður einnig til af lerkiblendingnum Hrym, en ljóst er þó að mun minna lerki verður á boðstólnum en verið hefur undanfarin ár.

Eflaust mun aftur koma fræár á lerki í Finnlandi og þá munum við kaupa fræ. Einnig er verið að stofna til nýrra rússalerkifrægarða í Svíþjóð, en þeir komast ekki í gagnið fyrr en eftir 10 ár eða meira. Þetta eru þær rússalerki uppsprettur sem við höfum. Það væri stórt skref afturábak að leita til Rússlands því reynslan af fræi þaðan undanfarin 30 ár er afar slæm. Það munum við því ekki gera. Við þurfum því að sætta okkur við það að verulegur samdráttur verði á gróðursetningu lerkis á komandi árum.

Eitt og annað er hægt að gera í málinu. Unnið er að því að auka fræframleiðslu Hryms auk þess sem hægt er að skoða fjölgun hans með græðlingarækt. Það eru þó langtímaverkefni og óvíst hvenær þau skila sér í verulega auknu magni fræs. Á meðan þarf að gera aðrar ráðstafanir.

Það er einkum tvennt sem kemur til greina: að auka gróðursetningu á stafafuru í það sem kallað hefur verið lerkiland og að auka notkun sitkagrenis í rýrari landgerðum þar sem lerki eða fura hafa verið helstu tegundir til þessa. Aukin notkun stafafuru þýðir að gera þarf ráðstafanir til að afla fræs, bæði innanlands og með innflutningi á kynbættu fræi frá Svíþjóð. Það verður hvort tveggja gert. Aukin notkun sitkagreins á rýrari landgerðum hefur í för með sér auka aðgerðir svo sem endurtekna áburðargjöf og er því dýrara en að gróðursetja lerki, sem þarf oftast engan áburð. Á móti kemur að sitkagreni er almennt beinvaxið og verður að lokum stærra en lerki og fura þó það fari seinna af stað.

Skógræktarráðgjafar og sérfræðingar Skógræktarinnar vinna nú með þessar hugmyndir og munu niðurstöðurnar birtast í formi ráðgjafar til skógarbænda. Fólk á ekki að vera hissa á því að fá ráðgjöf um að nota sitkagreni í land sem hingað til hefur einkum verið talið hæfa lerki.

Smellið hér til að sjá frétt á skogur.is

Þröstur Eysteinsson

skógræktarstjóri

bottom of page