Stjórnarfundir FsS 2020-2021

4. Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 30.3.2021 kl. 15


Mætt voru Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson. Ísólfur Gylfi var fjarverandi.


Björn setti fundinn.

Aðal efni fundarins er að undirbúa aðalfund félagsins, sem fyrirhugaður er laugardaginn 17. apríl kl 10.

Upphaflega stóð til að fundurinn yrði með nokkuð hefðbundnu sniði, en þó yrði hann einnig sendur út á Teams fyrir þá sem ekki treysta sér til að mæta. En í ljósi nýjustu fjöldatakmarkana, er líklegra að hann verði eingöngu á Teams, nema breyting verði aftur á sóttvarnareglum og fjöldinn megi fara upp í 50 manns.


Stjórn fór yfir fyrirhugaða dagskrá aðalfundarins.

Ísólfur Gylfi og Sólveig eiga að ganga úr stjórn. Gefa þau bæði kost á sér áfram.

Björn sagði frá og skýrði eftirfarandi:

1) Bændasamtökin ákváðu á Búnaðarþingi nýlega að breyta samtökunum, og ljóst að skógræktardeild verður stofnuð innan þeirra, óháð því hvað við viljum eða segjum. Þetta mun verða betur kynnt á aðalfundi FsS og síðan á aðalfundi LSE, sem er fyrirhugaður 24. apríl nk., þar sem kosið verður um tillöguna.

Því er ljóst að ef þetta verður fellt á aðalfundi LSE þá verður samt til skógardeild. Og ef þetta verður samþykkt, verður LSE lagt niður 2022. Hætta er á að talsverður hluti skógareigenda verði ekki í landssamtökunum, á hvorn veginn sem þetta fer.


Umræður um málið, en fram kom hjá Sólveigu að hún sé ekki sátt við inngöngu í Bændasamtökin.


2) Björn hefur fundað með Skógræktinni, Skógræktarfélagi Árnesinga, Límtré og Eflu þar sem rætt hefur verið um vinnu í afurða- og markaðsmálum sem snúa m.a. að þurrkun á timbri á Suðurlandi. Hugmyndin er að sækja um styrk til Evrópusambandsins á næsta ári til þessarar vinnu.


Rætt áfram um fyrirhugaðan aðalfund FsS.

Stjórn ákvað að leggja til óbreytt árgjald fyrir næsta ár.

Rætt um starfsáætlun FsS fyrir næsta ár, sem verður lögð fyrir aðalfund.

Dagskrá aðalfundar FsS fylgir með þessari fundargerð.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 16:10.


Sigríður J. Sigurfinnsdóttir


Aðalfundur FsS DRÖG AÐ FUNDARBOÐUN:


Félags skógareigenda á Suðurlandi heldur aðalfund sinn á netinu (teamsfundur) laugardaginn 17. apríl n.k. klukkan 10:00.

Fundarstjóri verður Hreinn Óskarsson og mun hann senda fundarboð á Teams nokkrum dögum fyrir fundinn.

Dagskrá:

1. Fundarsetning.


2. Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins


3. Kosningar.

- Tveir fulltrúar í stjórn félagsins. Ísólfur Gylfi Pálmason og Sólveig Pálsdóttir eiga að ganga úr stjórn, en þau gefa bæði kost á sér áfram. Aðrir sem vilja gefa kost á sér í stjórn láti formann FsS vita fyrir aðalfund 17. apríl nk. , bjorn@bjarndal.is.

- 3 varafulltrúar í stjórn

- Skoðunarmenn reikninga

- Tilnefning fulltrúa í stjórn LSE


4. Árgjald félagsins

5. Hugsanleg innganga í Bændasamtók Íslands. (Hlynur Gauti Sigurðsson)

Umræður

6. Kynning á skýrslu Skógarfangs- Horft fram á við (Björn B. Jónsson)

7. Kynning á Kolefnisbrúnni (Hlynur Gauti Sigurðsson)

8. Stafsáætlun FsS fyrir starfsárið 2021 til 2022

9. Umræður og önnur mál


10. Fundarslit


3. Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 19.3.2021 kl 17


Mætt voru Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson. Ísólfur Gylfi Pálmason kom síðar inn á fundinn.

Björn setti fundinn.


1) Aðalfundur FsS. Rætt um aðalfund Félags skógareigenda á Suðurlandi. Stefnt á að hann verði laugard, 17. Apríl, en eftir er að ákveða staðsetningu. Reynt verður að streyma frá fundinum. Hugsanlega koma formaður eða framkvæmdastjóri LSE og segja frá fyrirhugaðri inngöngu í Bændsamtökin.


2) Málefni Garðyrkjuskólans. Að öllum líkindum mun Garðyrkjuskólinn að Reykjum, fara undir stjórn FSu á næstunni. Margt er þó enn óljóst og staðan er erfið. Skólinn að Reykjum hefur haldið utan um grunnnám í skógrækt og því skiptir þetta máli fyrir skógarbændur. Sigurður Sigursveinsson vinnur að þessum tilflutningi.


3) Innganga í BÍ. Nú er að verða nokkuð ljóst hvernig fyrirkomulagið verður. Stjórn mun fá kynningarefni þar um á næsta stjórnarfundi, eða fyrr. Í nýjum bændasamtökum verður sérstök skógardeild. Formaður segir að einu áhyggjurnar séu, hvað verði um þá skógarbændur sem ekki munu ganga í BÍ. Rafn spyr hvort rætt hafi verið um hvort félögin geti gengið inn í samtökin sem slík, í stað einstaklinga. Það hefur verið rætt en því var alfarið hafnað.


4) Aðalfundur LSE. Líklega verður aðalfundur LSE haldinn á Hótel Hamri við Borgarnes, síðla í apríl. Þar mun fara fram atkvæðagreiðsla um inngöngu skógarbænda í BÍ.


5) Starfið framundan. Rætt um hvernig stjórn ætlar að koma starfi félagsins af stað á ný, en vegna covid hefur allt almennt félagsstarf legið niðri í heilt ár. Tímabært er t.d. orðið að koma leshópum af stað, e.t.v. í ágúst. Rætt um hvernig Jónsmessugangan gæti orðið. Etv. verða nokkrar göngur t.d. 2-4 í stað einnar, vegna fjöldatakmarkana.


6) Önnur mál. Reyna á að fá einhvern af nýjum eigendum Kvista til að segja frá starfseminni þar og stöðu mála.


Næsti stjórnarfundur er ákveðinn fimmtudaginn 25. mars kl 16:30 á Selfossi.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 17:45


Sigríður J. Sigurfinnsdóttir


2. Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 4.2.2021 kl 10:00.


Mætt voru Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason. Auk þess gestur fundarins, Jóhann Gísli Jóhannsson.Björn setti fundinn og bauð gest okkar Jóhann Gísla Jóhannsson formann LSE sérstaklega velkominn.


Aðal efni fundarins er að ræða um hugsanlega inngöngu skógareigenda, LSE í Bændasamtök Íslands. Jóhann Gísli (JG) fræddi stjórn um stöðuna, ferlið sem búið er og það sem framundan er.


Stjórn FsS bað (á stjórnarfundi 3.12.2020) LSE um að fengið yrði mat sérfræðings til að greina kosti og galla sameiningar. LSE varð við þeirri beiðni stjórnar og er SWOT skýrsla nú komin út og stjórnarmenn hafa skoðað hana. Því var gott að fá JG á fundinn til að spyrja hann nánar um ýmis atriði.


Hætta er á að við förum klofin inn í BÍ, ef ekki næst samstaða meðal skógarbænda, Það verður sérstök skógardeild í Bændasamtökunum, og Landssamtök skógareigenda í þeirri mynd sem það er í dag, mun leggjast niður.


JG. Það hafa verið miklar viðræður sl mánuði, og hlutirnir hafa tekið breytingum, en nú virðist ýmislegt vera að skýrast. T.d. hvað það þýði að vera deild inni í kerfinu. Við komum til með að hafa vald yfir okkar hlutum eins og verið hefur og munum að mörgu leyti halda áfram að starfa svipað og í dag.


BÍ hefur samþykkt að árgjald skógareigenda verði 15 þús fyrstu 3 árin, en mun síðan hugsanlega hækka í samræmi við gjöld annarra félagsmanna. BÍ mun leggja til að fulltrúar okkar í stjórn skógardeildar BÍ dreifist um landið, einn landshluti getur ekki orðið alls ráðandi.


Búnaðarþing verður líklega 22. mars og eftir það þurfa félög skógareigenda og LSE að kynna málið fyrir sínu fólki.


Spurningar og umræða: Hvað gerist ef Búnaðarþing samþykkir ekki inngöngu okkar? Hvernig skynjið þið anda skógarbænda í þessu máli? Margir eru hræddir um að hin almenni skógarbóndi vilji ekki ganga í Bændasamtökin, því árgjaldið verði of hátt, sérstaklega fyrir þá sem eru með litlar eða engar tekjur af skóginum.


JG. Ef Búnaðarþing samþykkir ekki inngönguna, þá þyrfti að semja um fjármagnið af rammasamningnum. En okkur finnst vera frekar mikil jákvæðni fyrir þessu. Í sambandi við litlu skógarbændurna vona ég að það verði þannig að það verði einhver gulrót að lokum þannig að fólk vilji vera þarna inni, sjái sér hag í því.


Sp. og umr: Endurtekið í umræðunni, að stjórnarmenn eru hræddir um að einhverjir vilji ekki vera þarna inni, og jafnvel að helmingur eða fleiri skógareigendur verði ekki með. Þá verði skógarbændur mjög klofnir. Mikilvægt sé einmitt að ná samstöðu. Og enn mikilvægara verður nú að fara í fundarherferð út til félaganna, eins og staðið hefur til. Það hefur dregist út af Covid, en vonandi getur orðið af því þegar fer að vora.


Við þurfum að vera áberandi á Búnaðarþingi, því ef skógareigendur taka fullan þátt og stór hluti skráir sig í BÍ, þá verðum við áberandi og fjölmenn þar. Mikið tækifæri í skógrækt er í kolefnismálum, og yrði það styrkur skógareigenda innan BÍ.


JG. Við munum halda því fjármagni sem við höfum, ein breytingin er að framkvæmdastjórinn, Hlynur Gauti mun færast frá að starfa fyrir LSE og yfir í Bændasamtökin. Þar munu framkvæmdastjórar stundum vinna þvert á búgreinar.

Sp og umr: Líklega mun þessi breyting verða tækifæri fyrir skógareigendafélögin. Við þurfum þá að endurskoða starfsemina og laga hana að breyttu umhverfi. Eitt af því sem kom fram er að við þurfum að rífa upp gleðina í starfinu og samskiptum okkar. Eitt og annað hefur breyst við sameiningu Landshlutaverkefnanna og Skógræktarinnar, þar á meðal félagsstarfið. Og óhjákvæmilega verða áfram breytingar ef af inngöngu í BÍ verður. Við þurfum að leggja á það áherslu að njóta þess betur að hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman, bæði að halda fræðslufundi og skemmtanir.

- Næsta mánudag verður stjórnarfundur LSE. Þar verður áframhald á vinnu við samninga við BÍ. Samþykkt í stjórn að Björn B Jónsson, okkar fulltrúi haldi áfram þessari vinnu.


Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 11:20. Þökkuðum gesti okkar, Jóhanni Gísla fyrir komuna.


Sigríður J. Sigurfinnsdóttir


1. Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 8.1.2021 kl 10:00.


Mætt voru Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Agnes Geirdal.

Björn setti fundinn.


1. Ný Bændasamtök.

Rætt um hugsanlega inngöngu LSE í Bændasamtökin. Stjórn þykir vanta samantekt á kostum og göllum sameiningarinnar, en sú vinna er farin af stað hjá LSE. Eftirfarandi bókun var samþykkt og formanni FsS falið að fylgja þessu eftir:

„Áskorun á stjórn Landssamtaka skógareigenda.

Stjórn Félags skógareigenda á Suðurlandi skorar á stjórn Landssamtaka skógareigenda að fresta öllum viðræðum við Bændasamtök Íslands um inngöngu LSE í bændasamtökin og niðurlagningu Landssamtaka skógareigenda í þeirri mynd sem þau eru rekin í dag. Viðræður verði upp teknar þegar samkomubanni verður aflétt vegna Covid 19.

Greinagerð.

Með öllu er útilokað í dag, vegna Covid 19, að funda með skógareigendum þar sem kynntar eru hugmyndir um inngöngu LSE í bændasamtökin og kannaður áhugi félagsmanna á breyttu félagskerfi skógarbænda á Íslandi. Mikilvægt er að í samræðum skógareigenda geti komið fram hver vilji félagsmanna er til inngöngu í BÍ.”


2. Klasi um úrvinnslu.

Nú er komin út skýrslan “Horft fram á við í afurða og markaðsmálum skóga”,

en hvað með framhaldið? Formaður kynnti hugmynd að stofnun klasa um nýtingu skógarafurða. Óformlegar viðræður nokkurra aðila hafa farið fram um slíkan klasa.


3. Garðyrkjustöðin Kvistar hefur verið seld. Kaupendur sem er hópur nokkurra aðila mun taka við stöðinni 1. mars nk.


4. Kolefnisbrúin.

Bændasamtökin vilja koma að stofnun hlutafélags um Kolefnisbrú.5. Samráðsfundir LSE.

Næsti samráðsfundur Skógræktarinnar hefur verið boðaður 14. jan. nk. Varaformaður FsS er boðaður á hann sem fulltrúi FsS, en formaður er eins og kom fram á síðasta stjórnarfundi í raun fulltrúi LSE.


6. Önnur mál.

a) Hrönn ræddi um félagsgjöldin, og hvernig eigi að haga greiðslum til LSE. Einhver mistök urðu þegar hún sendi út rukkun um félagsgjöld, þannig að hjón fengu bæði rukkun í sumum tilvikum. Það verður leiðrétt.

b) Áframhald varð á umræðum um Bændasamtökin og aðild að þeim.

· Lístu margir yfir áhyggjum af því hvað verði um skógarbændur og samtök þeirra.

· Hvernig á að leggja LSE niður? Lög LSE eru ekki skýr hvað það varðar. Það er mikið mál að leggja niður félag.

· Hefur verið tekið saman hve margir myndu hugsanlega ganga í BÍ? Fundarmenn telja að það vanti mikið upp á að allir skógarbændur geri það, einungis hluti þeirra.

· Rætt um hvort væri rétt að senda þessar hugmyndir til almennra félagsmanna til kynningar, en stjórn vantar sjálfa skýrari skilgreiningar á kostum og göllum, og óskar eftir þeim frá óháðum aðila. Þá væri hægt að kynna þetta fyrir félagsmönnum. Stjórn óskar eftir að fá formann LSE, Jóhann Gísla á fund til að fara yfir þessi mál.Næsti fundur er áætlaður 4. febrúar kl 10.


Fleira ekki rætt, fundi slitið

Sigríður J. Sigurfinnsdóttir


4. Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 3.12.2020 kl 10:00.

Mætt voru

Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Björn setti fundinn.


1. Jólatrjáasala. Skógarbændur hafa verið að selja jólatré úr skógum, og þá helst furur. Stjórn óskar eftir skýrari leiðbeiningum hjá Skógræktinni um það hvort og hve mikið skógarbændur mega selja. Vísað til samráðsfundar með Skógræktinni.


2. Ný bændasamtök. Stjórn fór yfir nýjar tillögur Bændasamtakanna um sameiningu búgreinafélaganna og að LSE verði deild innan BÍ. Stjórn FsS þykir margt óljóst og þörf á að skoða málið miklu betur. T.a.m. hvað þýðir þetta peningalega fyrir venjulegan skógarbónda, hvernig yrði deildin skipuð og sömuleiðis var rættum hvað verður um skjólbeltabændur í nýju fyrirkomulagi? Eins var rætt um þá hættu að ákvarðanataka um málefni skógarbænda á eftir að fjarlægjast og ekki fyrirséð hvort skógarbændur geti komið að lokaákvörðun um einstök mikilvæg mál eins og verið hefur.


Eftirfarandi er bókað: “Stjórn telur mjög óljóst hvaða hag LSE hafi af því að ganga í Bændasamtökin og telur þörf á að fá sérfræðing til að meta kosti og galla þess. Sérfræðimat þyrfti að vinna hratt og vera lokið 20. janúar 2021.”


3. Breyttar uppgjörsreglur hjá skógarbændum. Skógræktin er að undirbúa nýjar uppgjörsreglur fyrir skógarbændur sem taka mið af Stafrænu Íslandi. Nýjar uppgjörsreglur taka gildi 1. janúar 2022, en kynning fer fram á næsta ári.


4. Samtal FsS við Skógræktarfélag Árnesinga. Formaður Skógræktarfélags Árnesinga og Björn B Jónsson formaður FsS hafa rætt um aukið samstarf í markaðs og afurðamálum, sem er sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila.


5) Afmæli Skógræktarfélags Íslands. Í tilefni af 90 ára afmæli félagsins sendi stjórn FsS, Skógræktarfélaginu styrktarlínu í Skógræktarritið.


6) Fésbókarsíða FsS er orðin til og nú þurfa allir að vera duglegir að nota hana.


7) Ný skýrsla um afurða- og markaðsmál. Út er komin skýrslan “Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga” sem teymishópurinn Skógarfang hefur unnið að sl. 3 ár á vegum LSE og Skógræktarinnar. Hún mun verða aðgengileg á skogarbondi.is. Einnig er komið út rit um “Gæðafjalir, viðskiptaflokkun á timbri” sem er að finna á www.treprox.eu og hægt að hlaða bókinni niður endurgjaldslaust.


8) Kolefnisbrúin. Mikill áhugi er á verkefninu og margir skógarbændur eða tilvonandi skógarbændur á Suðurlandi hafa sótt um þátttöku í tilraunaverkefni Kolefnisbrúarinnar.


9) Greiðsla vegna aksturs stjórnarmanna. Lagt til að þeir stjórnarmenn sem þurfa að keyra langar leiðir á fundi fái greiðslu fyrir akstur. Stjórn samþykkir að félagið borgi 50 kr /km umfram 30 km vegalengd að heiman og á fundarstað.


10) Samráðsfundir LSE. Stjórn leggur til að varaformaður FsS sitji samráðsfundi yfirstjórnar Skógræktarinnar, stjórnar LSE og formanna aðildarfélaganna, þar sem það fer saman að formaður FsS er einnig í stjórn LSE.


11) Önnur mál.

A) Farið yfir stöðuna á félagatali og störf gjaldkera nú í lok árs.

B) Samþykkt að senda jólakveðju til félagsmanna á Rúv, einnig í pósti og á fésbók.

C) Fundarferð verður vonandi í vor, auka þarf tengingu við félagsmenn.

Stefnt að næsta stjórnarfundi 7. janúar.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 11:20

Sigríður J. Sigurfinnsdóttir3. Stjórnarfundur ​​

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, “Teams” fjarfundur 1.10.2020 kl 9 árdegis


Mætt voru Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Agnes Geirdal og Rafn A. Sigurðsson


1. Frestun aðalfundar LSE

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er nokkuð óljóst hvenær aðalfundur LSE verður haldinn og hafa nokkrar tillögur komið fram. Stjórn LSE stefnir að því að halda hann í nóvember. Önnur hugmynd er að eingöngu örfáir fulltrúar komi frá hverju aðildarfélagi til að afgreiða aðalfundarstörf sem nauðsynleg eru. Í gær kom síðan tillaga frá Félagi skógareigenda á Austurlandi um að fresta honum um 1 ár og halda 2 fundi að ári. Stjórn mun velta fyrir sér hugmyndum að tillögum fyrir fundinn á næstunni, eða þegar að fundinum kemur.


2. Kolefnisbrúin

Rætt um þetta nýja verkefni sem er komið á fljúgandi siglingu. Mikið er búið að vinna í því og góð viðbrögð hjá landeigendum. Fyrirtækið kemur til með að sjá um kaup og sölu, og jafnframt að fá skóga vottaða hjá þar til bærum vottunaraðilum. E.t.v. munu þeir skógarbændur sem þegar eru með samning geta selt kolefnisbindingu, þannig að þetta verkefni er mjög áhugavert fyrir skógareigendur.


3. Fundir FsS í október

Fræðslu og kynningarfundir sem stjórn ætlaði sér að vera með á Suðurlandi í október verður frestað um tíma vegna covid. Stjórn mun taka stöðuna þegar fer að vora og reyna að halda fundi þá ef ástandið verður betra í þjóðfélaginu.


4. Heimsókn til Aðalsteins Sigurgeirssonar út í Ölfus

Stjórn stefnir áfram á að heimsækja Aðalstein á næstunni, en mun gæta fyllstu varúðar vegna aðstæðna.


5. Fjármál og félagatal

Loksins er prókúra Hrannar komin í gegn og hún getur farið að sinna verkefnum gjaldkera. Netfangalisti félaga er orðinn nokkuð réttur.


6. Fréttir af LSE

Björn upplýsti stjórn um ýmis mál. Skógræktin er heldur að draga úr greiðslum vegna ýmissa þátta sem þó eiga að vera inni, eins og t.d. fyrir áburðargjöf á eldri gróðursetningar. Annað mál er viðhald á girðingum og er lögfræðingur að athuga það mál fyrir skógarbændur.Verkefni sem ekki hefur fengist fjármagn í en hefur verið rætt, er að opna vefsvæði eða heimasvæði þar sem hver skógarbóndi getur haft aðgang að öllum upplýsingum um sína jörð, trjátegundir í reitum o.s.frv. Alltaf er verið að ræða taxta og girðingamál. Það er stefnt að því að halda stóra ráðstefnu um girðingamál.


7. Fésbókarsíða FsS

Agnes Geirdal er búin að opna fésbókarsíðu fyrir félagið og var rætt um hana. Ákveðið að hún verði eingöngu fyrir félagsmenn FsS.


8. Önnur mál

Næsti stjórnarfundur verður haldinn 5. nóvember.


Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 10

Sigríður J. Sigurfinnsdóttir2. Stjórnarfundur ​​

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, haldinn á Selfossi, 17.08.2020 kl 10:15

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson

Björn setti fundinn og Sigríður las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Ákveðið að nefndarmenn hafi 2 daga til að gera athugasemdir við fundargerðir þegar þær hafa verið sendar út.

1. Skógargangan að Núpum í sumar Mikil ánægja var með skógargönguna, skógurinn að Núpum er fjölbreyttur og sérstaklega skemmtilegt að sjá hve mikið er af Hlyn. Stjórnin vill leggja það til við forsvarsmenn Skógræktarinnar að skógarbændum verði boðið upp á úrval ýmissa trjátegunda, t.d að þeir geti fengið 1 bakka á ári af ýmsum „sjaldgæfari“ tegundum. Allir voru sammála um að skógargöngur eigi áfram að vera eitt af verkefnum okkar og við þurfum að hafa hugann við það hvar næsta skógarganga ætti að verða, gott að ákveða það fljótlega eftir áramót.

2. Fjármál Hrönn er að vinna að því að virkja prókúruna.

3. Félagatal Björn var búinn að sjá af hverju voru mistök í skráningu netfanga og hefur leiðrétt þau að mestu. Stjórn skipti á milli sín að yfirfara félagatalið betur. Talsverð fækkun hefur verið í félaginu sl ár og gæti það stafað af því að ekki er lögð jafnmikil áhersla á skjólbelti og áður. Stjórn FsS telur að Skógræktin þyrfti að auka skjólbeltarækt aftur og koma henni í fyrra horf. Einnig ætlar stjórnin að skoða sérstaklega hvort ekki séu áhugasamir einstaklingar sem stunda annars konar skógrækt en nytjaskógrækt, sem hefðu áhuga á að ganga í félagið og að starfa með því. Ritari heldur utan um félagatalið og þarf að fá að vita um allar breytingar.

4. Starfið framundan a) Fundir Stefnt er að því að halda opna fundi í hverri sýslu fyrir skógarbændur og aðra áhugasama. Auglýstur verður „Umræðufundur um skógrækt – opinn öllum áhugasömum um skógrækt“. Reynt verður að halda þessa fundi eftir miðjan október. b) Heimasíðan Heimasíða FsS er vistuð hjá heimasíðu LSE. Þar setjum við inn fundargerðir, fréttir og af starfi okkar. Heimasíðan þarf að vera lifandi og við þurfum að koma henni á framfæri. c) Fésbók Stefnum að því að opna fésbókarsíðu FsS. d) Leshópar Björn lýsir yfir áhuga sínum á að FsS stofni leshópa. Hægt væri að kynna þá á fundunum í október. Hámark 12 manns yrðu í hverjum hóp og gott væri að hafa bókina „Kraftmeiri skógur“ til að styðjast við. Hópunum yrði væntanlega skipt þannig að áhugasamir um t.d. skjólbeltarækt yrðu saman í hóp, þeir sem væru í nytjaskógrækt saman og þeir sem væru með skógrækt í smærri stíl o.s.frv. Leshópar yrðu einungis fyrir félagsmenn í FsS.

5. Aðalfundur LSE Áætlað er að halda aðalfund LSE að Hamri við Borgarnes 2.-4. okt nk. Nokkur óvissa er með fundarhöld vegna Covid. Björn ætlar að leggja það til í stjórn LSE að eingöngu muni mæta ca 5 fulltrúar frá hverju félagi. Ákveðið að styrkja þá sem fara á fundinn á svipaðan hátt og verið hefur.

6. Elmia Wood Á 4ra ára fresti er stór tækjasýning í skógrækt, í suður Svíþjóð, Elmia Wood. Björn hefur tekið að sér, f.h. LSE að skipuleggja hópferð á næstu sýningu, sem verður 17.-19. maí 2021.

7. Úrvinnslumál - Kvistar Rætt um framtíð garðyrkjustöðvarinnar á Kvistum. Stjórn vonast til að þar verði áframhaldandi plöntuframleiðsla.

8. Jólamarkaður Rætt um möguleika á hvort félagið gæti hugsanlega haldið jólamarkað, þar sem skógarbændur gætu komið sínum afurðum í sölu, í stíl við jólamarkaðinn í Heiðmörk. Ekki er gert ráð fyrir að jólamarkaður verði á þessu ári, en félagsmenn þurfa að ræða þessa hugmynd.

9. Stjórnarfundir FsS Samþykkt að halda stjórnarfundi kl 9:00 árdegis fyrsta fimmtudag í mánuði, oftast gert ráð fyrir að funda á netfundum.

10. Önnur mál Björn var spurður um sitt álit á því hvernig Skógræktin virkaði, varðandi samskipti við skógarbændur, samanborið við Landshlutaverkefnin áður. Hann telur að sameiningin hafi ekki tekist eins vel að öllu leyti og hann vonaðist til, m.a. vegna þessa að boðleiðirnar eru oft of langar. Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 12. Sigríður J. Sigurfinnsdóttir

1. Stjórnarfundur ​​nýrrar stjórnar

Stjórnarfundur nýrrar stjórnar FsS, haldinn á Selfossi 21. júní 2020 kl 17:30

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hrönn Guðmundsdóttir og Sólveig Pálsdóttir og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir var tengd við fundinn með síma.

Björn setti fundinn. 1. Skipting innan stjórnar. Stjórn skipti með sér verkum þannig að Hrönn er gjaldkeri, Sigríður er ritari og Ísólfur Gylfi og Sólveig meðstjórnendur. Þau síðast nefndu eru kosin til 1 árs, Hrönn 2ja ára og Sigríður til 3ja ára.

2. Tilkynning til skattstjóra um breytingu á stjórn. Ný stjórn og varastjórn, ásamt meirihluta fyrri stjórnar þarf að skrifa undir „Tilkynningu um breytingu á stjórn“ sem verður send skattstjóra. Hrönn tekur að sér að safna undirskriftum og koma þeim til skila.

3. Prókúra. Hrönn er nýr gjaldkeri og verður því prókúruhafi FsS.

4. Félagatal. Formanni og ritara falið að yfirfara félagatal.

5. Varastjórn. Samþykkt að varamenn fái alltaf fundarboð og hafi möguleika á að mæta á fundi, þó ekki sé ætlast til þess, nema þeir þurfi að mæta vegna forfalla einhvers. Einnig að þeir fái fundargerðir sendar.

6. Skógarganga á Núpum. Skógarganga verður að kvöldi þessa dags að Núpum í Ölfusi í boði skógarbænda þar, Guðmundar og Unnar. Gangan hefst kl 19:00, áætluð 1 og ½ tíma ganga, og síðan sér stjórn FsS um að grilla pylsur. Ísólfur Gylfi kemur með gítar og söngskrá er tilbúin.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 18:00. Sigríður J. Sigurfinnsdóttir

1. Stjórnarfundur ​​2020

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, haldinn 3.mars 2020 að Víðihvammi 10, Kópavogi, klukkan 16:00.

Mættir: María E. Ingvadóttir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Hannes Lentz, Hrönn Guðmundsdóttir, Októ Einarsson, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir og Sigurður Karl Sigurkarlsson.

1. Fundargerð frá síðasta stjórnarfundi var samþykkt samhljóða og án athugasemda.

2. Starfið framundan: Þann 6. mars mun FsS heimsækja verksmiðju Límtrés á Flúðum kl. 17:00. Þaðan verður haldið að Efra-Seli í Hrunamannahreppi, þar sem snæddur verður kvöldverður að loknum almennum félagsfundi Í boði FsS. Gengið var frá dagskrá fyrir félagsfundinn.

3. Viðhorfskönnun fyrir félagsmenn í FsS var kynnt. Októ og Bjarnheiður útbjuggu könnunina og fundurinn samþykkti að leggja hana fram á félagsfundinum á Efra-Seli og hafa í framhaldi umræður um fyrirhugaða könnun sem send verður til allra meðlima FsS.

4. Skv. landslögum þarf að skrá raunverulega eigendur FsS í Fyrirtækjaskrá. Gengið var frá eyðublöðum fyrir slíka skráningu og þau undirrituð af fundarmönnum.

5. Ákveðið var að halda aðalfund FsS að Reykjum 28. mars n.k. Leitað hefur verið til Ólafs Oddssonar um að halda fræðsluerindi í tengslum við aðalfundinn. Að loknum aðalfundarstörfum verður boðið upp á heimsókn í fyrirtækið Pure North Recycling, áður Fengur. Pure North Recycling hyggst endurnýta allt plast sem fellur til á landinu í framtíðinni.

6. Rætt var um kosningu nýrra félagsmanna til stjórnarsetu. Enginn af núverandi fulltrúum í aðalstjórn FsS gefur kost á sér til endurkjörs. Það þarf að kjósa formann til tveggja ára; tvo stjórnarmenn til eins árs; einn stjórnarmann til tveggja ára; og einn stjórnarmann til þriggja ára.

7. Jónsmessuferð félagsins í ár verður að Núpum í Ölfusi 21. júní. Mæting að Núpum er kl. 19:00.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 18:00.

Fundarritari Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir

 Landssamtök skógareigenda (LSE)  - Bændahöllinni við Hagatorg  - 107 Reykjvaík  -  GSM: 775 1070  -  hlynur@skogarbondi.is - kt 660897-2089