top of page

Vaninn hamlar hjálpinni


Grein sem birtist í Bændablaðinu í maí sl.

Vaninn hamlar hjálpinni

Loftslagsvandinn

Sífellt fleiri eru að átta sig á því að aðgerða er þörf í loftslagsmálum. Það þarf að minnka kolefnislosun og auka kolefnisbindingu. Það er ekki nóg að gera annaðhvort, hér þarf að vinna á mörgum vígstöðvum á sama tíma. Flestir geta breytt einhverju í hegðun sinni varðandi innkaup, samgöngur o.fl, losað minna og/eða bundið meira, til dæmis með gróðri. Margir eiga, eða hafa umráð yfir landsvæðum sem eru lítið nýtt, uppskerulítil, eða jafnvel að blása upp.

Mynd 1 er tekin á landsvæði sem hefur verið friðað fyrir beit frá árinu 2002. Þarna var ekki að sjá jákvæðar breytingar þrátt fyrir 18 ára friðun. Hér er „íslenski staðargróðurinn“ að hopa fyrir eyðingaröflunum, sem er ekki viðunandi ástand. Þarna er t.d. þjóðarblómið í vanda sem það ræður ekki við. Það þarf verulega aðstoð til að samfelld gróðurþekja myndist.

Gróðurfarið sem sést á mynd 1 er forstig að algerri auðn og verði ekkert að gert, má ætla að þarna verði hvorki gróður né jarðvegur í náinni framtíð. Um aðferðir til úrbóta má lengi deila, en við höfum hvorki mikið fjármagn né tíma, svo að fljótvirkar og ódýrar aðgerðir verða að sitja fyrir.

Mynd 2 var tekin á Hólasandi þar sem nánast allur gróður og jarðvegur var horfinn. Þarna sést hvernig lerki getur vaxið upp úr ónýtu landi og jafnvel skapað verðmæti fyrir næstu kynslóðir. Er hægt að horfa framhjá svona tækifærum? Svæðið er norðan Mývatnssveitar, í töluverðri hæð yfir sjávarmáli.

Plöntuval

Ljóst er, að þegar landnámsmenn hófu búsetu hér á landi náði gróður og jarðvegsþekja mun lengra inn á hálendið, þar sem nú er auðn. Þó að þær neikvæðu breytingar séu ekki eingöngu af mannavöldum, þá stöndum við í mikilli skuld við landið. Að auka útbreiðslu birkis er gott mál, en ekki er ráðlegt að reyna að endurheimta nákvæmlega það gróðurfar sem var hér við landnám. Það er einfaldlega ekki raunhæft vegna þess að nýjar tegundir berast hingað, ná útbreiðslu og aðrar gefa eftir. Náttúran er síbreytileg. Þá kemur upp spurningin hvort er ekki betra að miða við forsögulegan tíma þegar hér uxu afkastameiri trjátegundir sem ekki lifa hér nú, eða eru nýlega innfluttar.

Val á plöntum til skógræktar og landgræðslu er vandaverk og þarf að vera í stöðugri endurskoðun miðað við vöxt hverrar tegundar. Það fer líka eftir markmiðum ræktunarfólks, aðstæðum, kostnaði, kolefnisbindingu, ofl. Taka ætti tillit til þess hvaða tegundir hafa þrifist best á hverjum stað, en einnig þarf að prófa nýjar tegundir og samvinnu tegunda. Aðalatriði er að nota plöntutegundir og aðferðir sem skila góðum árangri við að binda kolefni, skapa verðmæti fyrir ræktunarfólk og mynda jafnframt gróður og jarðvegsþekju í stað þess sem tapast hefur.

Mynd 3. Hjá vasahnífnum fremst á myndinni má sjá birkiplöntu sem er jafngömul plöntunum í lúpínubreiðunni hjá bílnum. Stærðarmunurinn er svo margfaldur að það er ekki hægt annað en nýta sér þessa aðferð.

Mynd 4. Þarna er 16 ára skjólbelti þar sem flestar plöntur eru illa farnar af kali, nema þar sem lúpína er þeim til hjálpar, þar vaxa víðiplönturnar eins og ekkert hafi í skorist. Er ekki rétt að nýta svona aðstoð við ræktunina?

Sé tekið mið af legu Íslands, ættu hér að vaxa miklir barrskógar og væri hér eflaust fjölbreyttari gróður, ef landið væri ekki svona langt frá meginlöndunum í austri og vestri. Við ættum þessvegna að varast „þjóðernishreinsanir“ hvað varðar plöntuval. Á fyrri hlýviðrisskeiðum hafa vaxið hér plöntur og trjátegundir sem nú lifa ekki á landinu, en finnast í jarðlögum. En eru þær ekki líka íslenskar, jafnvel íslenskari en þær sem vaxa hér nú? Varhugavert er að láta fegurðarsjónarmið ráða plöntuvali því að það er afstætt, það sem einum finnst fallegt, finnst öðrum ljótt. Hér þarf að velja þær plöntur sem vaxa, binda kolefni, geta fjölgað sér sjálfar og gera gagn í umhverfi sínu.

Mikil kolefnislosun á sér stað úr framræstu landi. Séu slík svæði lítið nýtt er aðallega um þrjá kosti að velja. Í fyrsta lagi að gera ekkert til úrbóta, sem er ekki góður kostur og þýðir áframhaldandi losun. Í öðru lagi að hækka jarðvatnsstöðu til að draga úr losun og í þriðja lagi er hægt að gróðursetja fljótsprottnar viðartegundir t.d ösp og ná þannig meiri kolefnisbindingu heldur en losuninni nemur. Sýnt hefur verið fram á með tilraun sem gerð var á Suðurlandi, að þriðji kosturinn er raunhæfur möguleiki, en honum hefur lítið verið haldið á lofti. Með þeirri aðferð geta myndast umtalsverð verðmæti í trjáviði til viðbótar kolefnisbindingunni, en einnig skjól fyrir menn, dýr og gróður.

Land án uppskeru

Fólk sem hefur fastar mánaðartekjur á e.t.v. erfitt með að setja sig í spor þeirra sem lifa af uppskeru af landi. Við sem erum háð því að landið gefi eitthvað af sér, getum varla sætt okkur við að hafa land án uppskeru, eða með gróður- og jarðvegseyðingu. Til samanburðar myndi fólk í fjármálageiranum varla vilja eiga stóra innistæðu án vaxta, eða jafnvel með neikvæðum vöxtum.

Á mynd 5 sést hluti af þeim 250 hekturum sem við þurfum að græða upp af okkar landareign s.k.v gæðastýringu í sauðfjárrækt. Þetta markmið næst augljóslega ekki nema með því að nota lúpínu. Tilbúinn áburður og grasfræ duga ekki. Á þá aðferð er komin margra ára reynsla. Rofabörðin sýna að mikill jarðvegur er farinn.

Sjálfbærni

Trjáplöntur sem geta fjölgað sér sjálfar á Íslandi hafa sannað gildi sitt og má þar nefna lítil furutré sem sjást meðfram þjóðvegum, á svæðum friðuðum fyrir beit.

Það þarf að bregðast við loftslagsvandanum strax og við höfum ekki efni á að nota plöntur sem þurfa mikinn tilbúinn áburð. Auk þess fylgir því kolefnislosun að framleiða tilbúinn áburð í fjarlægum löndum, flytja hann hingað og dreifa á lítt gróið land.

Birkiskóga er hægt að rækta á svæðum þar sem birkið þrífst vel, er sjálfbjarga. En það á ekki að einblína á þessa trjátegund til landgræðslu, hún bindur minna kolefni en margar aðrar. Fjöldi trjátegunda hafa þann augljósa kost framyfir birkið, að geta myndað verðmætar timburafurðir. Að sjálfsögðu eigum við að leggja áherslu á að framleiða það timbur í landinu sem við getum, minnka innflutning. Sjálfbærni ætti að vera leiðarljós í mörgum greinum.

Vaninn hamlar aðgerðum til hjálpar

Það virðist ríkt í huga margra, að gróðurfar eigi að vera eins og þeir muna eftir því frá æskuárum sínum. Jafnvel þó að um sé að ræða óviðunandi ástand gróðurs. Þeim „hjólförum“ þurfum við að komast uppúr.

Mynd 6 er tekin í minna en 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er því ekki hægt að segja að gróðurfarið eigi að vera svona á þessum stað. En bara af því að við erum vön að sjá þetta eins og það er, sættum við okkur við ástandið. Sem er auðvitað neyðarástand og landsvæði á borð við þetta þyrftu að vera í gjörgæslu. Hér gæti lífrænn úrgangur virkað samhliða sáningum. Sjálfgræðsla er útilokuð, þó að beit væri aflétt.

Mynd 7. Á stórum landsvæðum víða á Íslandi má sjá gróðurfar líkt og það sem sést á myndinni. Það er alltof algengt og er í raun neyðarástand þar sem jarðvegurinn er að hverfa burt með vindum og vatni. Ætlum við að skila landinu svona til næstu kynslóða, eða ætlum við að gera eitthvað róttækt í landbótum? Við gætum gert svo miklu meira í því að auka gróður, binda þannig jarðveg og mynda nýjan.

Hvað getum við gert

Landgræðslan, Skógræktin, félagasamtök og einstaklingar hafa um langt skeið unnið mikið starf við að bæta gróðurfar landsins, en engu að síður þarf þjóðin að horfast í augu við það, að næstum helmingur flatarmáls Íslands er eyðimörk og það er óviðunandi ástand. Þar sem auðnirnar eru að einhverju leyti af mannavöldum ber okkur skylda til að koma upp gróðri þar sem víðast. - Það er tímabært að taka þessi störf, landgræðslu og skógrækt alvarlega, ekki bara sem tómstundagaman, þótt margir hafi gert góða hluti á þeim forsendum. Ekki ætti að líta þannig á, að skógrækt þvælist fyrir hefðbundnum búgreinum, heldur að hún sé eðlilegur hluti af landbúnaði nútímans. Í flestum landshlutum er nægilegt ræktanlegt land eftir, þótt eitthvað sé tekið undir skógrækt, Ísland er jú að mestu skóglaust land. - Kolefnisbinding er nauðsyn og möguleikar Íslands eru miklir af því að landið er í tötrum. Á þessum óvissutímum finnst mér að stjórnvöld ættu að fara í stórfellt átak í landgræðslu og skógrækt, ríkið á t.d jarðir víða um land. Upplagt að nýta vinnuafl sem losnar t.d úr ferðaþjónustunni til að skapa verðmæti til framtíðar. Landgræðslan þyrfti nú að framleiða mikið magn af lúpínufræi til að sá í auðnir landsins og einnig til að hafa lúpínuna sem hjálparplöntu með trjátegundum sem hentar sambýli við hana. Þannig mætti spara mikinn tilbúinn áburð, enda fylgir notkun hans töluverð kolefnislosun, ásamt hættu á uppgufun og útskolun.

Mynd 8. Í forgrunni sést, að þegar ekki eru lengur rætur sem binda jarðveginn, þá eru jafnvel steinarnir farnir að fjúka og sverfa þann gróður sem eftir er. Svo eru líka auknar frosthreyfingar. Aftar á myndinni var sáð lúpínu fyrir nokkrum árum. Hún er okkar áburðarverksmiðja. Engin önnur planta virðist ráða við aðstæðurnar.

Nú er bara að hefjast handa, græða upp, gróðursetja (tveggja metra reglan 😊) og passa að ekki fari allur tíminn í umræður og skriffinnsku.

Líf eða dauði, hvort viljum við heldur?

bottom of page