top of page

Skógarganga á Mýrum á Héraði -FsA


Blíðuveður lék við göngufólk frá Félagi skógarbænda á Austurlandi og Skógræktinni þegar farið var í göngu um skógræktina á Mýrum í Skriðdal í lok júní. Eftir gönguna var haldinn samráðsfundur Skógræktarinnar við skógarbændur á félagssvæðinu og fundarmenn gæddu sér á veitingum.


Við hittumst í Stefánslundi sem er minningarlundur um Stefán Þórarinsson fyrrum bónda á Mýrum. Byrjað var að planta greni í lundinn árið 1971 og síðar einnig lerki. Páll Guttormsson stjórnaði verkinu en hvatamaður að skóginum var Zophonías Stefánsson. Síðan var gengið um hluta skógræktarinnar sem er frá árunum 1996 -2000. Þar er mestmegnis lerki- og furuskógur en einnig þó nokkuð af ösp sem vex vel upp úr bláberjalyngsmóa. Jónína Zophoníasdóttir, Jón Júlíusson og Einar Zophoníasson bændur á Mýrum tóku höfðinglega á móti okkur en um 50 manns mættu.


Þröstur Eysteinsson og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir héldu stuttar tölur og svöruðu fyrirspurnum. Umræður voru aðallega um girðingamál sem brenna á skógarbændum ekki síður en sú staðreynd að lerkifræ er svo til uppurið og ekki von á því að hægt verði að afla þess fyrr en eftir rúman áratug. Það er ekki góð staða fyrir skógarbændur á þessu svæði. Þá voru grisjunarmál rædd en hundruðir hektara bíða grisjunar og millibilsjöfnunar á Austurlandi. Fjármagn hefur hins vegar ekki fengist til þeirra verka eins og þörf er á. Fram kom á fundinum að skógarbændur á Austurlandi hafa ítrekað ósk sína um að flutning bændaskógræktar á lögbýlum frá Umhverfisráðuneytinu í Landbúnaðarráðuneytið.Það er alltaf fróðlegt að heimsækja aðra skógarbændur, spjalla saman og njóta samverunnar. Þeim Jónínu, Jóni og Einari eru færðar kærar þakkir fyrir móttökurnar.


Maríanna Jóhannsdóttir – formaður FsA


Ketilkaffi ásamt grilluðum pulsum





bottom of page