Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi
17. apríl 2021 kl 10:00
Fundurinn var haldinn rafrænt. Fjarfundur með Teams forriti, þar sem sóttvarnarreglur leyfa ekki hefðbundið fundarform.
Þátttakendur voru eftirfarandi: Hreinn Óskarsson fundarstjóri, Hlynur Gauti Sigurðsson framkvæmdastjóri LSE, Björn B. Jónsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Rafn A. Sigurðsson, Agnes Geirdal, Anna Soffía Óskarsdóttir, Hjörtur Jónsson, Björgvin Filippusson, Sólveig Pálsdóttir, Jón Þorbergsson, Viktoría Guðnadóttir, Drífa Hjartardóttir, Bjarnfreður Ólafsson, Kjartan Lárusson, Ragnheiður Aradóttir, Sigurður Jónsson, Valgerður Erlingsdóttir, Þorbergur Hjalti Jónsson, Gunnar Sverrisson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Magnús Sigsteinsson, Elín Snorradóttir, Sigurður Haraldsson, Guðfinnur Eiríksson
1) Fundur settur kl 10:10
Björn setti fundinn og bað Hrein Óskarsson að vera fundarstjóra og Sigríði J. Sigurfinnsd. að rita fundargerð. Það var samþykkt.
2) Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins. Björn sem sendi skýrslu stjórnar til félagsmanna í gær, fór yfir helstu atriði hennar. Sjá meðfylgjandi ársskýrslu.
Áður en fundur var settur kom í ljós að mistök höfðu orðið við uppsetningu ársreiknings og gjaldkeri gat því ekki lagt reikninga fram. Það verður lagfært hið fyrsta, og munu félagsmenn fá reikningana senda, eftir lagfæringu og undirritun endurskoðenda og stjórnar. Síðan þarf að leita eftir samþykki ársreikninga á næsta aðalfundi.
3) Kosningar. Þau Ísólfur Gylfi og Sólveig áttu að ganga úr stjórn. Þau gáfu bæði kost á sér áfram og ekki voru fleiri framboð. Þau voru því sjálfkjörin. Sama var með varafulltrúa í stjórn, og sitja þau því áfram næsta árið, Agnes Geirdal, Rafn A. Sigurðsson og Þórarinn Þorfinnsson. Skoðunarmenn reikninga voru líka endurkjörnir, þeir Halldór Elís Guðnason og Ragnar G. Ingimarsson. Fulltrúi í stjórn LSE, Björn B. Jónsson gaf kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn LSE og var það samþykkt.
4) Árgjald félagsins. Stjórn leggur til óbreytt árgjald, 10 þúsund kr. og var það samþykkt.
5) Hugsanleg innganga skógareigenda í Bændasamtök Íslands. Hlynur Gauti framkvæmdastjóri LSE fór yfir ferlið, skýrði hvernig formið verður eftir inngöngu, og hver verði ávinningur félagsaðildar. Flokkaði hann það niður í a) kjör b) réttindi og hlunnindi c) upplýsingamiðlun og menntun d) starfsumhverfi. Stofnuð verður skógardeild/búgreinadeild innan BÍ og sér stjórn LSE um stjórn deildarinnar fyrsta árið. Félagsgjöld verða 20 þús til að byrja með. Framkvæmdastjóri LSE verður sjálfkrafa deildarstjóri skógardeildar. Um áramót 2020 voru 658 félagar í LSE en af þeim eru 198 (30.1%) í Bændasamtökunum.
Hrönn spyr um tryggingamál t.d. varðandi bruna. Hlynur telur að LSE hafi ekki verið með slagkraft í þau mál. Hefur trú á að aðild að BÍ komi betur út hvað tryggingamál varðar. Hann telur tækifæri þarna og þetta sé mikilvægt mál.
Björn kom inn í umræðuna um brunavarnir. Allir skógar þurfa að vera með brunavarnakort. Björn ræddi líka um kosti og galla við inngöngu í BÍ. Hver og einn skógarbóndi þarf sjálfur að ganga inn í BÍ. LSE verður lagt niður í þeirri mynd sem það er, ef af inngöngu verður. Helsti gallinn er að skógarbændur verða ekki sameinaðir á landsvísu.
Agnes spyr um A) skilgreiningu á hugtakinu ræktað land, það hefur verið misjafnt milli sveitarfélaga, tilheyrir skógur ræktuðu landi? B) Hvert verður hlutverk FsS eftir inngöngu í BÍ? Hlynur svaraði; B) Líklegt að það verði grasrótarstarf, og minnir á að það verður val að vera í BÍ. Björn svaraði; A) Skógrækt er ekki lengur skilgreint sem landbúnaður í jarðarlögum, þetta er hluti af því verkefni sem er í gangi um land allt. B) FsS þarf að spýta í lófana og þarf að halda utan um alla, skógareigendur og skjólbeltaræktendur. Síðan minnti Björn á að á næsta aðalfundi (ef af inngöngu verður) þá mega eingöngu þeir sem eru í BÍ, kjósa fulltrúa í skógardeild BÍ. Það verður kannski flókið í framkvæmd.
Anna Soffía spyr hvað með þá sem ekki búa á lögbýlum, geta þeir sótt um inngöngu í BÍ? Björn telur að það verði erfitt.
6) Kynning á skýrslu Skógarfangs. Björn fór yfir skýrsluna og mælti með ýmsum góðum greinum sem þar eru.
7) Kynning á Kolefnisbrúnni. Hlynur Gauti sagði frá Kolefnisbrúnni sem fór af stað fyrir ári síðan. Á Youtube má finna ýmsan fróðleik um hana. Helstu aðilar sem hafa verið í samstarfi við LSE varðandi Kolefnisbrúna eru Bændasamtökin og Skógræktin. Einnig hafa einhver sveitarfélög og útgerðarfélög verið í samstarfi eða sambandi og horfa þá helst á ræktun í nágrenni sínu. Einnig hafa orkufyrirtæki líka haft samband og vilja binda kolefni. Komin er skrá sem heldur utan um kolefnisbindingu.
Hreinn bætir við og segir að það séu aðilar erlendis frá sem vilja binda kolefni hér á landi. Bjarnfreður spyr hvort hægt sé að selja vottun af skógi sem þegar er til. Hlynur svarar að það sé mikið í umræðunni nú þegar.
8) Starfsáætlun FsS fyrir starfsárið 2021-2022. Björn fór yfir starfsáætlunina sem var send félagsmönnum í gær.
9) Umræður og önnur mál.
Hlynur ræddi um blaðið „Við skógareigendur“, það er margt að frétta frá skógarbændum.
Hreinn minnir á þegar einn að austan fór að knúsa tré og það hafði víða áhrif.
Agnes spyr hver séu næstu skref í sambandi við BÍ. Björn segir stutt í aðalfund LSE (1 vika), þar fer fram atkvæðagreiðsla um inngöngu eða ekki. FsS hefur skoðað þetta mikið og spurt, fengu í gegn að gerð var svokölluð Swot greining varðandi málið. Til tals kom hvort fundurinn þyrfti að velja um inngöngu eða ekki, en Björn segir það eingöngu á valdi LSE að kjósa þar um.
Anna Soffía spyr hvort skógarbændur hafi efni á að missa sameiginlegan vettvang, ef félögin komi til með að verða að deild innan BÍ. Björn segir að margir hafi hugsað um það og rætt hafi verið um það. Þörf er á að finna starfinu farveg. Hlynur segir Kolefnisbrúna geta átt mikinn þátt í sameiningunni og einnig hvernig við stöndum saman. Skógarbændur eru margir og geta verið öflugir.
Hrönn óskar eftir tillögum félagsmanna að hugsanlegum jónsmessugöngum, þar sem þær verða fleiri og fámennari en venjulega.
Einnig lagði Hrönn f.h. stjórnar, fram ályktun varðandi Garðyrkjuskólann, sem var borin undir fundinn og samþykkt;
“Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi haldinn laugardaginn 17. apríl 2021, sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Félag skógareigenda á Suðurlandi skorar á menntamálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, að standa vörð um Garðyrkjuskólann á Reykjum og tryggja að starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum, ásamt endurmenntun í greininni, haldist í góðum tengslum við atvinnulífið. Mikilvægt er að starfsemi skólans fái að halda áfram á Reykjum og nýta þær fasteignir og landkosti fyrir starfsemina eins og verið hefur.”
10) Fundarslit. Björn þakkar Hreini fyrir aðstoðina og þakkar öllum fyrir þátttöku í fundinum. Hvetur hann félagsmenn til að vera virka í starfinu og að vera í sambandi við stjórn.
Fundi slitið kl 12:10
Fundargerð ritaði Sigríður J. Sigurfinnsdóttir
Ársskýrsla Félags skógareigenda á Suðurlandi (FsS) fyrir starfsárið 2020-2021.
Á síðasta aðalfundi FsS var ný stjórn kosin.
Björn Bjarndal Jónsson formaður, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir ritari, Hrönn Guðmundsdóttir gjaldkeri og Ísólfur Gylfi Pálmason og Sólveig Pálsdóttir meðstjórnendur.
Þau síðast nefndu voru kosin til 1 árs, Hrönn til 2ja ára og Björn og Sigríður til 3ja ára.
Varastjórn skipa;
Rafn A. Sigurðsson, Þórarinn Þorfinnsson og Agnes Geirdal og skoðunarmenn reikninga Ragnar G. lngimarsson og Halldór Elís Guðnason.
Á starfsárinu voru haldnir sjö stjórnarfundir, en fundargerðir stjórnar eru settar á heimasíðuna skogarbondi.is, sjá https://www.skogarbondi.is/sudurland.
Starf félagsins á árinu hefur einkennst af heimsfaraldinum Covid 19, en fjöldatakmarkanir á samkomum hafa útilokað félagið, eins og önnur sambærileg félög, eins og að auglýsa opna fundi og aðrar samkomur.
Engu að síður tókst okkur að halda árlega Jónsmessugöngu skógarbænda. Skógargangan var sunnudagskvöldið 21. júní s.l., klukkan sjö um kvöldið að Núpum í Ölfusi í boði skógarbænda þar, Guðmundar og Unnar.
Gengið var um skóginn að Núpum undir leiðsögn skógarbóndans Guðmundur A. Birgissonar og leiddi hann hópinn, sem voru nær 60 manns, og sagði frá þessum einstaka útivistar- og nytjaskógi. Þar er að finna nær allar helstu trjátegundir sem notaðar eru í nytjaskógum í dag, ásamt miklu úrvali af eðaltrjám.
Upphaf skógræktar að Núpum er frá 1985, en stór hluti nytjaskógarins var plantað árið 2000 og næstu ár þar á eftir. Vöxtur skógarins er með eindæmum góður, en athygli vakti eðaltré sem er að finna vítt og breitt um skóginn. Þar á meðal er hlynur sem vex vel og er án allra óþrifa. Unnið er að því að rækta hlyn í nokkrum hekturum lands og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri ræktun á næstu árum.
Rennisléttir göngustígar og vegslóðar eru um allan skóg sem eru vel við haldið m.a. með reglulegum slætti. Vandfundnir eru skógar með betra og snyrtilegra aðgengi en að Núpum og ræktendum til mikils sóma.
Um skóginn liggur gamla leiðin til Reykjavíkur, sem var farin fyrir fyrr á öldum og fyrir komu Kambana sem liggja norður af Núpum.
Skógræktarstjóri var með í göngunni að þessu sinni, ásamt fleirum stjórnendum Skógræktarinnar. Gaf það göngunni faglegt yfirbragð þar sem göngufólk gat spurt spurninga um allt er viðkemur skógrækt og fengið greið svör við.
Í lok göngunnar tók Unnur húsfreyja á móti hópnum í gróðurhúsinu á Núpum og veitti vel af mat og drykk, en í lokin var grillað í garðinum, lagið tekið við gítarundirleik og ketilkaffi drukkið áður en haldið var heim á leið.
Fátt var um fleiri skipulaga viðburði á árinu hjá FsS, en þó náði formaður að halda erindi um afurðamál skóga hjá Borgarbókarsafninu í Reykjavík. Var það vel sótt af skógræktarfólki og vel skipulagt í alla staði af þeim sem fyrir fræðslukvöldinu stóðu.
Félagið opnaði fésbókarsíðu undir nafni Félags skógareigenda á Suðurlandi á síðasta ári. Tæplega 20 félagar er orðnir félagar nú þegar, en mikilvægt er að auka umferð um síðuna til að hún nýtist félögum sem best, en ákveðið var að síðan verði eingöngu fyrir félagsmenn FsS.
Agnesi Geirdal eru færðar bestu þakkir fyrir þá vinnu sem hún lagði fram til að gera síðuna að veruleika.
Enda þó það hafi ekki verið mikið um sameiginlegar samkomur á árinu þá var unnið engu að síður að ýmsum mikilvægum framfaramálum sem félagið kom að eða einstakir félagsmenn okkar unnu að.
Síðustu ár hefur verið unnið á landsvísu að skýrslugerð um stöðu í afurða- og markaðsmálum skóga. Þeirri vinnu lauk á síðasta ári með skýrslu „Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga“, sem var prentuð í vissu upplagi en jafnframt sett á netið þar sem hún er aðgengileg öllum sem vilja, sjá https://www.skogarbondi.is/skyrslur.
Vonandi verður þessi skýrsla til að varpa ljósi á stöðu afurða- og markaðsmála um þessar mundir hjá skógareigendum og eins hvað gera þarf næstu misserin og árin til að styrkja þessa grein enn frekar.
Rétt er einnig að geta þess að komin er út bók um gæðamál í timburvinnslu. Bókin heitir Gæðafjalir og er einnig að finna á netinu á heimasíðu evrópuverkefnisins TreProX, sem er samstarfsverkefni skógargeirans hér á landi og LbhÍ, ásamt fleirum aðilum heima og erlendis. Sjá https://treprox.eu.
Þessi bók á að nýtast vel þeim sem eru að byrja að vinna timbur úr tjábolum.
S.l. haust var Garðyrkjustöðin Kvistar seld. Félag FsS óskar nýjum eigendum til hamingju með kaupin, en mikilvægt er að þessi vel rekna plöntustöð verði áfram í framleiðslu á skógarplöntum sem skógarbændur fá til gróðursetningar um ókomin ár. Garðyrkjustöðin Kvistar er önnur af stærstu plöntustöðum landsins í trjáplöntuframleiðslu og hefur verið vel rekin með mikla faglega þekkingu og reynslu. Hugmynd nýrra eigenda er einnig að skoða möguleika á úrvinnslu skógarafurða í framtínni sem yrði góð viðbót sem gæti styrkt skógrækt mikið til framtíðar.
Undanfarna mánuði hafa nokkrir aðilar á Suðurlandi, sem eru tengdir úrvinnslu úr skógarafurðum , átt sameiginlega fundi um möguleika á klasasamstafi til framtíðar. Engin niðurstaða en fengin en unnið verður áfram að þeim hugmyndum sem hafa komið fram hjá þessum aðilum sem gæti m.a. leitt til umsókna um styrki til ákveðinna verkefna.
Samráðsfundir milli Skógræktarinnar og formanna skógarbændafélaga ásamt stjórn LSE eru haldnir reglulega. Margt ber á góma á þessum fundum, en nú standa m.a. fyrir dyrum breyttar uppgjörsreglur hjá skógarbændum. Skógræktin er að undirbúa nýjar uppgjörsreglur fyrir skógarbændur sem taka mið af Stafrænu Íslandi. Nýjar uppgjörsreglur taka gildi 1. janúar 2022, en kynning fer fram á þessu ári.
Ný bændasamtök.
Stjórn FsS hefur fundað um tillögur Bændasamtakanna um hugsanlega sameiningu búgreinafélaganna og að þar með verði LSE deild innan BÍ, en ekki lengur landssamtök skógarbænda með sérstök lög.
Stjórn FsS hefur þótt margt óljóst við þessar breytingar og þörf á að skoða málið betur. T.a.m. hvað þýðir þetta peningalega fyrir venjulegan skógarbónda, hvað verður um skjólbeltabændur í nýju fyrirkomulagi og eins hefur verið rætt um þá hættu að ákvarðanataka um málefni skógarbænda eigi eftir að fjarlægjast og ekki fyrirséð hvort skógarbændur geti komið að lokaákvörðun um einstök mikilvæg mál eins og verið hefur.
Til að ræða málin betur þá var Jóhann Gísli formaður LSE fenginn á stjórnarfund til að fara yfir þessi mál. Hjá formanni LSE kom fram „að það hafa verið miklar viðræður sl mánuði, og hlutirnir hafa tekið breytingum, en nú virðist ýmislegt vera að skýrast. T.d. hvað það þýði að vera deild inni í kerfinu. Við komum til með að hafa vald yfir okkar hlutum eins og verið hefur og munum að mörgu leyti halda áfram að starfa svipað og í dag“.
Núverandi stjórn LSE mun taka við stjórn Skógardeildar BÍ. BÍ hefur samþykkt að árgjald skógareigenda verði 15 þús fyrstu 3 árin, en mun síðan hugsanlega hækka í samræmi við gjöld annarra félagsmanna. BÍ mun leggja til að fulltrúar okkar í stjórn skógardeildar BÍ dreifist um landið, einn landshluti getur ekki orðið alls ráðandi.
Óljóst er hvað margir skógarbændur munu ganga í nýju bændasamtökin, en ljóst er að einstakrir skógarbændur ganga í deild BÍ, en ekki einstök félög skógarbænda í heild sinni.
LSE varð við þeirri beiðni stjórnar FsS að gera SWOT skýrslu, en þar kemur m.a. fram að tækifæri með inngöngu liggja m.a. í eflingu þekkingar og samstöðu um hróður og ágæti skógræktar. Áhrif skógræktar á aðrar aðildargreinar landbúnaðarar yrðu meira áberandi með deildarfulltrúa skógabænda. Einnig að með aðkomu að BÍ má reikna með að skógrækt verði viðurkennd búgrein og fái slíkan sess innan landbúnaðarráðuneytis.
Veikleikar yrðu helst að hætta er á að skógarbændur á Íslandi verða ekki sameinaðir í framtíðinni í einum landssamtökum ef gengið er inn í BÍ.
Kosið verður um framhald ákvarðantöku um inngöngu skógarbænda í BÍ á aðalfundi LSE í lok apríl.
Málefni Garðyrkjuskólans.
Að öllum líkindum mun Garðyrkjuskólinn að Reykjum, fara undir stjórn FSU á næstunni og færast þannig frá LbhÍ. Margt er þó enn óljóst og staðan er erfið. Skólinn að Reykjum hefur haldið utan um grunnnám í skógrækt og séð að mestu um endurmenntun skógarbænda og því skiptir það máli fyrir skógareigendur að vel takist til. Unnið er að þessum breytingum og ekki vitað á þessari stundu hver endanleg niðurstða verður með garðyrkjunámið á Reykjum.
Kolefnisbrúin.
Nýtt verkefni um stofnun félags/fyrirtækis um kaup og sölu kolefnisbindingar er komið á fljúgandi siglingu. Fyrirtækið kemur til með að sjá um kaup og sölu, og jafnframt að fá skóga vottaða hjá þar til bærum vottunaraðilum. E.t.v. munu þeir skógarbændur sem þegar eru með samning geta selt kolefnisbindingu, þannig að þetta verkefni er mjög áhugavert fyrir skógareigendur.
Öllum sem komu að starfi Félags skógareigenda á Suðurlandi eru færðar þakkir með von um áframhaldandi samstarf á nýju starfsári.
Fyrir hönd stjórnar FsS
Björn Bjarndal Jónsson formaður
コメント