Búgreinaþing Bændasamtaka Íslands.
Haldið á Hótel Natura (Loftleiðum) 3.mars 2022
Dagskrá búgreinaþings skógarbænda
(sjá Youtube, hér neðar)
Setning þings Skóg-BÍ
Skýrsla stjórnar
Kolefnisbrúin
Stefnumörkun BÍ, drög
Samþykktir Skóg-BÍ
Fundarhlé
TILLÖGUR
Stjórnarkjör Skóg-BÍ
Fulltrúar
Þeir sem geta verið fulltrúar á búgreinaþingi fyrir hverja delid innan BÍ eru þeir sem voru skráðir í félagatal um síðast liðin áramót. Skóg-BÍ félagar voru 149 manns. Aðrir fundarmenn eða gestir geta ekki greitt atkvæði en geta tekið til máls með leyfi fundarins. Fulltrúar fyrsta búgreinaþings skógarbændadeildar BÍ voru:
1 Jóhann Gísli Jóhannsson Austurland
2 Ólöf Ólafsdóttir A
3 Maríanna Jóhannsdóttir A
4 Halldór Sigurðsson A
5 Þórhalla Sigmundsdóttir A
6 Björn Bjarndal Jónsson Suðurland
7 Agnes Geirdal S
8 Kári Steinar Karlsson S
9 Hrönn Guðmundsdóttir S
10 Guðmundur Rúnar Vífilsson Vesturland
11 Bergþóra Jónsdóttir V
12 Guðmundur Sigurðsson V
13 Lúðvíg Lárusson V
14 Sighvatur Þórarinsson Vestfirðir
15 Dagbjartur Bjarnason Vfj.
16 Sigurlína Jóhannesdóttir Norðurland
17 Dagur Torfason N
18 Brynjar Skúlason N
0 Laufey Leifsdóttir N- forföll
0 Sigríður Jóna Sigurfinnsdóttir S- forföll
- Lárus Elíasson V- gestur
- Hlynur Gauti Sigurðsson starfsmaður fundarins (BÍ)
Upptaka af opnun Búgreinaþings 2022 (Hefst á 10 mínútu):
Upptaka af þingi Búgreinadeildar skógarbænda
Samþykktir Búgreinadeildar skógarbænda BÍ
3.mars 2022
Samþykktir Búgreinadeildar skógarbænda Bændasamtaka Íslands.
1. gr. Almennt
Bændasamtök Íslands mynda deild sem heitir Búgreinadeild skógarbænda. Heimili og varnarþing þess er á skrifstofu Bændasamtaka Íslands.
2. gr. Tilgangur
Tilgangur Búgreinadeildar skógarbænda er að sameina þá sem stunda skógrækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra innan Bændasamtaka Íslands.
3. gr. Félagsaðild
3.1.
Rétt til aðildar að Búgreinadeild skógarbænda hafa einstaklingar og lögaðilar sem stunda skógrækt, t.d. til nytja, landbóta, útivistar, skjólbelta, og fleira, enda séu þeir félagsmenn að Bændasamtökum Íslands.
3.2.
Einungis félagsmenn að skógarbændadeild Bændasamtaka Íslands sem hafa fulla aðild, sbr. liði 3.1, geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir Búgreinadeild skógarbænda.
3.3.
Full aðild að Búgreinadeild skógarbænda (sbr. liði 3.1.) fellur niður uppfylli félagsmenn ekki öll skilyrði um félagsaðild, skv. samþykktum Bændasamtaka Íslands.
4. gr. Búgreinaþing
4.1.
Búgreinaþing skal halda árlega í tengslum við búnaðarþing.
4.2.
Fulltrúar á búgreinaþing er sitjandi stjórn Búgreinadeildar ásamt kosnum fulltrúum sem koma af landinu öllu og endurspegla sem best landfræðilega dreifingu, þá sömu og skógarbændafélögin byggja á. Stjórn Skógardeildar B.Í. ákveður í upphafi hvers árs hvað margir fulltrúar eiga seturétt á búgreinaþingi og hve margir af hverju svæði fyrir sig.
Viðmiðunarfjöldi fulltrúa á búgreinaþingi skal vera 20 manns auk sitjandi stjórnar skógardeildar, sem hefur málfrelsi og atkvæðisrétt. Miða skal við að hafa sem jafnasta skiptingu milli kynja.
Fundir skógarbænda sem eru aðilar að BÍ skulu haldnir á internetinu í upphafi hvers árs, þar sem m.a. eru kosnir fulltrúar á búgreinaþing. Fundirnir verða haldnir eftir sömu svæðaskiptingu og eru hjá félögum skógarbænda.
4.3.
Búgreinaþing sitja með fullum réttindum þeir fulltrúar sem kosnir eru skv. 4.2.
Til að teljast fullgildur félagi skal viðkomandi hafa greitt félagsgjöld til BÍ um síðastliðin áramót skv. grein 3.1.
Félagsmenn skulu greiða veltutengt félagsgjald til Bændasamtaka Íslands, í samræmi við ákvörðun Búnaðarþings hverju sinni.
4.4.
Búgreinaþing er opið til áheyrnar öllum félagsmönnum. Óski fleiri aðilar, en kosnir hafa verið til þingsetu, eftir að sitja búgreinaþing með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.
4.5.
Staðfest félagatal skógarbændadeildar skal liggja fyrir hjá stjórn Búgreinadeildar og á Bændatorgi eigi síðar en 10. janúar ár hvert. Frá þeim tíma hafa félagsmenn deildarinnar 7 daga til að gera athugasemdir við fulltrúatöluna. Komi upp álitamál skal stjórn Búgreinadeildar skógarbænda úrskurða um málið samkvæmt grein. 4.3. svo fljótt sem kostur er.
Mál sem taka á til afgreiðslu á búgreinaþingi, skulu hafa borist skrifstofu Búgreinadeildar skógarbænda eigi síðar en 20 dögum fyrir búgreinaþing. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt fulltrúum búgreinaþings eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu þingsins. Búgreinaþing getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.
Tillögur sem liggja fyrir þinginu skulu kynntar stjórnum landshlutabundnu skógarbændafélaganna eigi síðar en 20 dögum fyrir búnaðarþing. Nefndarstörf vegna tillagna eru ákveðin hverju sinni.
4.6.
Á dagskrá búgreinaþings skal m.a. vera:
a) Skýrsla stjórnar.
b) Samþykktir Búgreinadeildadeildar skógarbænda BÍ
c) Tillögur til umræðu og afgreiðslu.
d) Kosning stjórnar skv. grein 7 í samþykktum þessum
e) Kosning fulltrúa á Búnaðarþing
f) Starfsáætlun til næsta árs.
g) Önnur mál.
4.7.
Stjórn deildarinnar, í samráði við framkvæmdastjóra BÍ, boðar til búgreinaþings skógarbænda eigi síðar en 10. janúar ár hvert. Búgreinaþing skógarbænda er löglegt sé löglega til þess boðað.
5. gr. Aukaþing
Aukaþing skal halda þyki stjórn Búgreinadeildar skógarbænda sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar a.m.k ¼ félagsmanna Búgreinadeildar skógarbænda óska þess, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukaþing skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukaþingi gilda sömu reglur og á þingi.
6. gr. Skipan stjórnar
Búgreinadeild skógarbænda skipar fimm manna stjórn: formaður og fjórir meðstjórnendur og fimm varamenn með jafnri dreifingu milli landshluta.
7. gr. Hlutverk stjórnar
Hlutverk stjórnar er að vinna að hagsmunum félagsmanna innan Bændasamtaka Íslands í gegnum Búgreinadeild skógarbænda, annast málefni deildarinnar milli búgreinaþinga og sjá um að þau málefni séu jafnan í sem bestu horfi.
8. gr. Störf stjórnar Búgreinadeildar
8.1.
Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur séu þrír stjórnarliðar á fundi.
8.2.
Stjórn Búgreinadeildar skógarbænda skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Fundargerðir skulu birtar á vefsvæði Búgreinadeildarinnar svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en að loknum næsta stjórnarfundi. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni og hún varðveitt með tryggilegum hætti.
9. gr. Samþykktar breytingar
Samþykktum þessum má aðeins breyta á búgreinaþingi eða aukaþingi, sem boðað er til þess sérstaklega. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti kjörinna fulltrúa greiði þeim atkvæði.
10.gr. Gildistími samþykkta
Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með búgreinaþingi þann 3.mars 2022.
Tillögur fyrir Búgreinadeild skógarbænda BÍ 3.mars 2022
1) Þrír stjórnarmenn í Búgreinadeild skógarbænda BÍ
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, ákveður að fjöldi stjórnarmanna í Búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ verði 3, þ.e. einn formaður og tveir meðstjórnendur. Greinargerð
Hingað til hefur stjórn deildarinnar verið skipuð eftir þeim lögum og voru viðhöfð hjá LSE, þ.e. fimm manns (karlar og/eða konur), einn frá hverju aðildarfélagi. Stjórn BÍ leggur til að stjórnir smærri búgreinafélaga BÍ verði skipaðar þremur; einn formaður og tveir meðstjórnendur. Fjármagn frá BÍ til stjórna búgreinadeilda hækkar hvorki né lækkar eftir fjölda stjórnarmanna. Upplegg BÍ er að greiða formanni fyrir hans vinnu en ekki öðrum stjórnarmönnum. Hver stjórn um sig ræður svo fram úr hvort breyta eigi þeim hætti. Rök með:
Formaður búgreinadeildar hjá BÍ fær laun fyrir sína formannsetu. Ef vilji stjórnar deildarinnar er að deila þeim launum milli stjórnarmanna getur hún ákveðið það. Ef jafnt greiðsluhlutfall er milli stjórnarmanna myndu laun breytast í öfugu hlutfalli við fjölda stjórnarmanna.
Boðun funda með færri fundarmenn gengur oft betur en með fleiri.
Engin ákvæði eru um fulltrúa eftir kynjum.
-Skóg-BÍ AFGREIÐSLA: Felld niður
2) Fimm stjórnarmenn í Búgreinadeild skógarbænda BÍ
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, ákveður að fjöldi stjórnarmanna í Búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ verði 5, þ.e. einn formaður og fjórir meðstjórnendur. Greinargerð
Hingað til hefur stjórn deildarinnar verið skipuð eftir þeim lögum og við voru höfð hjá LSE, þ.e. fimm manns (karlar og/eða konur),einn frá hverju aðildarfélagi. Engin ástæða er að breyta því þrátt fyrir tillögur stjórnar BÍ þar um. Rök með:
Formaður Búgreinadeildar hjá BÍ fær laun fyrir sína formannsetu. Aðrir stjórnarliðar vinna sjálfboðavinnu.
Núverandi stjórnarskipan, með fimm stjórnarmenn, endurspeglar vel dreifingu stjórnarliða um landið; Austurland, Norðurland, Suðurland, Vesturland og Vestfirðir.
Engin ákvæði eru um fulltrúa eftir kynjum.
-Skóg-BÍ AFGREIÐSLA: Felld niður
3) Þóknun stjórna búgreinadeilda BÍ
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, skorar á stjórn BÍ að endurskoða hlutdeild þóknunar til stjórna búgreinadeilda BÍ með það að markmiði að bjóða ásættanlega þóknun fyrir störf stjórnarliða í þágu búgreina sinna. Greinargerð
Fyrir sameiningu (1.júlí 2021) höfðu hvert og eitt búgreinafélag sitt eigið verklag við að umbuna stjórnarliða í sínum stjórnum fyrir sitt óeigingjarna starf. Til dæmis var stjórn LSE skipuð fimm stjórnarmönnum. Hver stjórnarliði fékk greitt á ársgrundvelli og auk þess var greitt fyrir ferðalög og setu hvers fundar (bæði samsetu- og tölvufund).
-Skóg-BÍ AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
4) Horft fram á við
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, samþykkir að fela stjórn deildarinnar að setja í farveg framhald vinnu um afurða- og markaðsmál í skógrækt, sem lauk með útgáfu á skýrslunni „Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga“ árið 2020. Innihald og niðurstöður framangreindrar skýrslu skal vera grunnur að þessari vinnu.
Greinargerð.
LSE og Skógræktin unnu á þriggja ára tímabili í vinnuhóp um afurða- og markaðsmál í skógrækt undir vinnuheitinu „Skógarfang“. Markmið þessarar vinnu var að undirbúa skipulag og gera stöðumat í afurða- og markaðsmálum skógræktar til langs tíma. Mikilvægt er að huga vel að úrvinnslumálum í skógrækt, í víðum skilningi þess orðs, en eins og fram kemur í kafla 3 í lokaskýrslu vinnuhópsins er hægt að framleiða úr trjáviði allar þær vörur sem í dag eru framleiddar úr kolum og jarðolíu, allt frá orku og hita upp í byggingarvörur, lífrænt plast, vefnaðarvörur og lyf.
Skógarauðlindin er nú þegar mikilvægur þáttur í samfélagi okkar og á aðeins eftir að vaxa og dafna í framtíðinni hér á landi sem annars staðar. Því er mikilvægt að vinna enn frekar að þessum málflokki og það verði gert á skipulegan hátt.
Linkur á skýrsluna „Horft fram á við“,
-Skóg-B
AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða Í
5) Umhirða
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, samþykkir að fela stjórn deildarinnar að vinna enn frekar í málefnum skógarumhirðu skógarbænda. Leggja þarf aukið fjármagn í málaflokkinn til að viðhalda væntum vexti, kolefnisbindingu og viðargæðum í skógum bænda. Greinargerð. Umhirða felur í sér aðhlynningu skóga, svo sem tvítoppaklippingu, millibilsjöfnun og uppkvistun eftir atvikum. Þegar hirt er um skóga með þessum hætti má reikna með verðmætaaukningu viðar, betra aðgengi fyrri menn og málleysingja, aukinni kolefnisbindingu í bolum trjánna, minnkandi hættu á stormfalli og eldhættu. Þó umhirða sé mikilvæg allan líftíma skógarins er hún einna mikilvægust fyrstu tvo áratugina; á meðan skógurinn er skilgreindur ungskógur.
Skógarbændur sem gerðu samning við ríkið um skógrækt á sinni jörð gerði ráð fyrir að ríkið myndi fylgja eftir samningsatriðum rétt eins og þeir hafa staðið við sitt. Eitt er að koma niður plöntum annað er að koma upp skógi. Í nýlegum skógræktarlögum er lögð aukin áhersla á kolefnisbindingu. Það á þó ekki þýða það að dregið verði úr umhirðu með væntri virðisaukningu uppvaxandi skóga.
-V og A AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
6) Loftslagsáskorun
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, hvetur Búnaðarþing 2022 til að samþykkja áskorun til bænda um að þeir fari af alvöru í kolefnisbindingu og kolefnisjöfnum síns rekstrar. Jafnframt er skorað á allar búgreinadeildir BÍ og stjórn BÍ að taka þessi mál strax föstum tökum.
Greinargerð
Á Búnaðarþingi 2018 var samþykkt mjög metnaðarfull „Umhverfisstefna landbúnaðarins 2020-2030“. Í stefnunni er vel, faglega og ítarlega farið yfir nauðsyn þess að landbúnaðurinn standi sig í þessum málum. Fáar leiðir eru þekktar fyrir bændur til bindingar á kolefni en fyrst og fremst fer hún fram með ljóstillífun græns gróðurs. Þar eru tré afkastamest. Ræktun þeirra fellur vel að starfi bænda sem í mörgum tilvikum eru einnig landeigendur. Ræktunin auðveldar þeim kolefnisjöfnun síns rekstrar og möguleika á markaðssetningu kolefnishlutlausra landbúnaðarafurða.
Ljóst er að stjórnvöld í landinu munu þrýsta á um að orðum verði breytt í gjörðir hvað þetta varðar hjá bændum. Ekki er ólíklegt að einhver umbun gæti fylgt árangri ef marka má grein Matvælaráðherra í Morgunblaðinu þann 14. febrúar s.l. Nauðsynlegt er að þessi mál verði hluti af endurskoðun Búvörusamnings 2023.
Auk framangreindra raka er það siðferðisleg skylda allra að taka þátt í því risaverkefni að tryggja komandi kynslóðum tilverumöguleika á jörðinni.
-A AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
7) Kolefnisbrú
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, samþykkir að fela stjórn deildarinnar að vinna hratt og vel að því að koma Kolefnisbrúnni myndarlega á fót öllum bændum til hagsbóta. Greinargerð Hlutverk Kolefnisbrúarinnar er að greiða vegferð sölu og framleiðslu á kolefniseiningum. Hagsmunir bænda verða í fyrrirúmi enda eru þeir einnig eigendur hennar.
-V AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
8) Vottun kolefnisbindingar
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, hvetur Búgreinadeild skógarbænda undir merkjum Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir gerð viðurkennds staðals sem unnið verði eftir við vottun hérlendis á kolefnisbindingu í skógi og verði hið opinbera viðmið. Greinargerð
Kolefnismál eru í brennidepli og krafa um heiðarlegt og rekjanlegt vottunarkerfi á Íslandi er hávær.
-N AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
9) Kolefnisbrúin efld
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, fer fram á við Kolefnisbrúna ehf. að annast kolefnis-, afurða- og úrvinnslumál í samráði við stjórn Búgreinadeildar skógarbænda. Tillagan tekur gildi eftir aðalfund LSE 2022.
Greinargerð
Í framhaldi af tillögu 7 og 8, Kolefnisbrúin.
-Skóg-BÍ AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
10) Jákvæð hvatning Skóg-BÍ
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, skorar á skógarbændur og aðra sem stunda skógrækt að gerast félagar í Búgreinadeild skógarbænda BÍ.
Greinargerð
Sameiningarafl skógarbænda innan BÍ er sterkara eftir því sem félagar deildarinnar eru fleiri og/eða veltan er hærri. Starfið endurspeglar rödd skógarbænda. Skógarbændur eru fjölbreyttir eins og þeir eru margir og getur tilgangur skógræktarinnar einnig verið mismunandi, svo sem nytjar, skjól fyrir tún, náttúruskógar eða yndisskógar. Mikilvægt er að rödd skógarbænda sé sterk, skógur er öllum til heilla.
-Skóg-BÍ AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
11) Félagsaðild að BÍ
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, skorar á Bændasamtökin að beita sér fyrir því að inngönguferli í BÍ verði einfaldað til muna.
Greinargerð
Allt of fáir skógarbændur eru félagar í BÍ miðað við umræðuna þegar sameining átti sér stað. Fjöldi bænda höfðu ekki skráð sig í deild skógarbænda um síðastliðin áramót. Hvort sem þar er hægt að kenna um slæmri upplýsingagjöf eða of flóknu innskráningakerfi, nema hvoru tveggja sé, þá þarf bragabót á.
-V AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
12) Skjólbelti
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, vísar því til Búnaðarþings að hvetja bændur til að koma upp skjólbeltum á bújörðum sínum. Greinargerð Skjólbelti þjóna margvíslegum tilgangi. Meðal helstu kosta við skjólbelti eru að þau veita skjól, uppskera er jafnan meiri þar sem skjólbelta nýtur við, þau binda kolefni, eru skjól fyrir gripi og stýra snjóalögum svo eitthvað sé nefnt auk þess sem þau ramma inn fagra ásýnd túna og jarða.
-A AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
13) Búvörusamningar
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, leggur til við Búnaðarþing að sérstök áhersla verði lögð á skógrækt, skjólbeltagerð og landgræðslu í komandi búvörusamningum. Greinargerð
Aldrei hefur verið mikilvægara að horfa til landnýtingar á ábyrgan hátt en nú á tímum viðsjárverðra loftslagsbreytinga. Treysta þarf jarðvegsauðlindina og tryggja sjálfbæra nýtingu lands sem m.a. styður við þá matvælaframleiðslu sem hér fer fram. Mismunandi lausnir henta ólíkum landgerðum. Sums staðar hentar að moka ofan í skurði en annars staðar er hagstæðara að planta skógi og rækta skjólbelti. Sömuleiðis þarf að græða upp svæði í afturför. Skjólbeltarækt kemur að góðu gagni til að auka frjósemi ræktarlands, t.d. túna og akra, og skógrækt er þegar orðin mikilvæg auðlind í íslenskum landbúnaði og gegnir til lengri tíma litið stóru hlutverki, bæði í kolefnisbúskap landsins og í timburframleiðslu. Í búvörusamningum þarf að tryggja fjármagn til skógræktar, skjólbeltaræktunar og landgræðslu á bújörðum og hvata svo bændur sjái sér hag í því að auka sín jarðvegsgæði og leggja kolefnisbindingu lið.
-N AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
14) Skógarplöntuframleiðsla
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, Búgreinaþingið samþykkir að skora á stjórn Búgreinadeildar skógarbænda að vinna að eflingu á plöntuframleiðslu í landinu, til að koma í veg fyrir að skarð myndist vegna skorts á skógarplöntum í nánustu framtíð. Er þá bæði horft til samninga um ræktun nytjaskóga og kolefnisbindingar með skógrækt.
Greinargerð
Ljóst má vera að mikil aukning verður á plöntun skógarplantna næstu misserin. Til þess að hægt verði að planta eins og samningar segja til um þarf að tryggja nægilegt framboð plantna og fjölbreytni sé tryggð.
-A AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
15) Framkvæmdaleyfi
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, beinir því til Búgreinadeildar skógarbænda BÍ að unnið verði að einföldun á afgreiðslu umsókna um framkvæmdaleyfi í skógrækt og að ferlið verði samræmt hjá sveitarfélögunum.
Greinargerð
Skipulagsmál varðandi skógrækt eru mismunandi í sveitarfélögum. Víða hefur ferlið um framkvæmdaleyfi verið seinlegt og flókið. Það hefur leitt til þess að framkvæmdaleyfum er hafnað eða landeigendur geta ekki orðið við þeim kröfum sem ætlast er til. Þetta er algjörlega óboðlegt á sama tíma og auknar kröfur eru um umhverfisvænni landbúnað og kolefnisbindingu. Bændur vilja mæta kröfunum og horfa í auknum mæli til skógræktar til að kolefnisjafna búskapinn. Það er því óásættanlegt að umsóknir festist í skipulagsferli sveitarfélaga sem vinni þannig gegn jákvæðri þróun í landbúnaði sem skógrækt er.
-V AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
16) Endurmenntun
Ársþing skógardeildar BÍ, haldið á Hótel Natura 3. mars 2022, beinir því til skógardeildar BÍ finni farveg til að efla námskeiðahald/endurmenntun fyrir skógarbændur. Þar er hvað brýnast að halda námskeið í umhirðu, grisjun og grunnnámskeið fyrir byrjendur í skógrækt. Einnig má nefna námskeið á borð við Grænni skóga. Greinargerð Undirstaða góðs árangurs byggir á þekkingu og á það jafnt við um skógrækt sem annað. Grænni skógar hjá LBHI og önnur námskeið voru oft og iðulega meðal skógarbænda fyrir ekki svo mörgum árum. Borið hefur á að framboð á námskeiðum til endurmenntunar sem nýmenntunar hefur minnkað. -V AFGREIÐSLA: Samþykkt samhljóða
Ný stjórn
Aðalmenn 2022-2023
Staða Nafn Heimili Landshluti
Formaður Jóhann Gísli Jóhannsson Breiðavaði Austurland (búnaðarþingsfulltrúi)
Varaformaður Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir Flugumýrarhvammi Norðurland
Meðstjórnandi Hrönn Guðmundsdóttir Læk Suðurland
Meðstjórnandi Guðmundur Sigurðsson Oddsstöðum 2 Vesturland
Meðstjórnandi Sighvatur Jón Þórarinsson Höfða Vestfirðir
Varamenn 2022-2023
Staða Nafn Heimili Landshluti
Varamaður Marianna Jóhannsdóttir Snjóholti Austurland
Varamaður Laufey Leifsdóttir Stóru Gröf syðri Norðurland
Varamaður Björn Bjarndal Jónsson Kluftum Suðurland
Varamaður Bergþóra Jónsdóttir Hrútsstöðum Vesturland
Varamaður Dagbjartur Bjarnason Brekku Vestfirðir
Fráfarandi aðalmenn úr stjórn.
Björn Bjarndal Jónsson, Rúnar Vífilsson og Naomi Bos
Mynd af vetvangi. Mynd: Hlynur Sig
Nýja stjórn Skóg-BÍ skipa Jóhann Gísli Jóhannson -formaður, Hrönn Guðmundsdóttir, Guðmundur Sigurðsson, Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir og Sighvatur Jón Þórarinsson (Sigrúnu og Sighvat vantar á myndina). Mynd: Hlynur Sig
Þess má geta að fjöldi félagsmanna Skóg-BÍ 3.mars 2022 voru 173 manns.
Þess má einnig geta að fjöldi fundarmanna greindist með Covid vikuna eftir þingið, þeirra á meðal sá sem þetta skrifar.
Fundargerð kemur síðar
Viðurkenningarvottur
Mynd: Agnes Geirdal
Í lok fundar færði Jóhann Gísli þeim Birni og Rúnari, fráfarandi stjórnarmönnum Skóg-BÍ, ásamt Hlyni blágreni og gjafabréf í gróðrarstöðina Mörk í viðurkenningarskyni fyrir sín störf. Naomi Bos var ekki á staðnum en hennar bíður sami viðurkenningarvottur á skrifstofu BÍ. Mynd: Agnes Geirdal
Mynd: Agnes Geirdal
Mynd: Agnes Geirdal
Mynd: Höskuldur
Mynd: Höskuldur
Samantekt
Hlynur Gauti Sigurðsson
Comments