MYNDBAND með grein hér neðar
Búsetuskógrækt
”Besti tími til að gróðursetja tré var fyrir 30 árum, næstbesti tíminn er núna.” Sennilega munu þessi orð einnig eiga við eftir þrjátíu ár.
Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson
Skógar íslenskra bænda dafna vítt og breytt um landið. Engum sem þá þekkja dylst lengur ágæti og ávinningur skóganna. Skipulögð ríkisstudd skógrækt á lögbýlum hófst 1991 á innanverðu Fljótsdalshéraði (Hérað) með Héraðsskógum, verkefni sem var ýtt úr vör fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að búseta í sveitinni legðist af sökum niðurskurðar á sauðfé vegna riðuveiki. Lagt var upp með að bjóða bændum að rækta skóg í landi sínu. Tignarlegur Hallormsstaðarskógur gaf bændum kjark um árangur skógræktarinnar. Bændur hófu gróðursetningar af krafti og í dag, um þremur áratugum síðar, er Hérað ein blómlegasta og byggilegast sveit landsins.
Í lok síðustu viku (18.-19 apríl) fór formaður stjórnar búgreinardeildar skógarbænda hjá BÍ, Hjörtur Bergmann Jónsson, ásamt stjórnarmanninum Bjarna G. Björgvinssyni, fyrrum formanni Jóhanni Gísla Jóhannssyni og undirrituðum í ferð um Hérað. Um árabil hafa aðalskrifstofur Skógræktarinnar verið á Egilsstöðum eða alveg fram að síðustu áramótum við stofnun Lands og skógar. Heimsóttir voru vel valdir staðir með það að markmiði að skilja forsendur bændaskógaræktar í fortíð, nútíð og ekki síst, framtíð. Skógar á ýmsum aldri teygja sig vítt og breytt um sveitina og skógarhögg er hafið á nokkrum jörðum. Uppistaða skóganna er lerki og má vel merkja að grisjunar er þörf á mörgum bæjum.
Á jörðinni Víðivellir ytri 2 hefur verið komið upp einni afkastamestu viðarvinnslu landsins. Þar er fyrirtækið Skógarafurðir sem hefur vaxið örugglega á þeim áratug sem það hefur verið starfandi, enda bæði mikil eftirspurn eftir íslenskum viði og framboð timburs úr skógunum eykst ár frá ári. Þegar föruneytið bar að garði stóð yfir sögun á ösp sem ætluð var í utanhússklæðningu á gistiheimili í Vallanesi (betur verður komið að því hér síðar). Bjarki Jónsson, skógarbóndi og framkvæmdastjóri, sýndi allar nýjustu græjurnar á staðnum og voru þær af ólíkum stærðum og gerðum, svo sem háhraða stórviðarsagir, þurrkgámar, eldstæði, fræsarar og sagpressa. Með þessum búnaði er hægt að ná góðum afköstum í framleiðslu á pallaefni, panil, arinviði, og því nýjasta, ylkubbum. Óhætt er að segja að hugmyndirnar eru margar hjá ört stækkandi fyrirtæki og áhugavert verður að sjá fyrirtækið þróast inn í framtíðina.
Á næstu jörð, Víðivöllum ytri 1, er að finna annars konar viðarvinnslu en hjá nágrannanum. Þar fór Hörður Guðmundsson, skógarbóndi og þúsundþjalasmiður, yfir ýmislegt sem hann er að brasa úr efni skógarins. Mest fer fyrir framleiðslu á lerkistaurum. Fyrir um sex árum keypti hann fræsara og hefur eftirspurn girðingarstaura aukist ofboðslega ár frá ári. Nú hefur hann fengið annan fræsara og ætti sú búbót að halda í við eftirspurnina. Nýjasta græjan í flotanum er skífuvél sem lengst af var starfrækt á Flúðum og síðast í Eyjafirði. Hörður framleiðir einnig lífkol en þau eru eftirsóknarverður jarðvegsbætir fyrir t.d. tún. Þessir þrír vöruflokkar falla vel hver að öðrum þar sem hráefnið nýtist betur.
Á Eskifirði framleiðir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabretti, viðarperlur. Í upphafi var höfuð áhersla lögð á að fullnýta aflögð vörubretti en með aukinni grisjun í skógum á Héraði hefur opnast markaður fyrir viðarperlur úr íslensku lerki. Hráefnið er aðallega lakara efnið úr grisjunum sem síður hentar til flettingar og oft með miklu barkarhlutfalli. Viðarperlur úr lerki eru olíumettaðri en þekkist í perlum víða í Evrópu og eru fyrir vikið orkuríkari. Tandrabretti framleiðir viðarperlur undir merkinu Ilmur auk þess að hafa umboð fyrir viðarofna sem knúðir eru viðarperlum. Viðarofnar og nýting viðar er sjaldnast nefnt í samhengi orkuskipta en hún henta mjög vel fyrir svokölluð „köld svæði“ um land allt. Ofnar Tandrabrettis hafa gefið góða raun, t.d. í skóla- og íþróttamannvirkjum í Neskaupstað og í Végarði, húsnæði sveitastjórnar Fljótsdalshrepps.
Í Vallanesi búa hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir. Undir merkjum fyrirtækis síns, Móðir jörð, hafa þau getið sér gott orð fyrir lífræna ræktun og má finna ýmsa gómsæta vöruflokka frá þeim í búðarhillum landsmanna. Án stórvaxinna skjólbelta og skóga sem umlykja jörðina á alla kanta er ólíklegt að ræktun væri jafn árangursrík og raun ber vitni. Ræktunarskilyrðin hafa batnað svo mjög að hægt er að líkja því við að landareignin hafi færst nokkuð suður á bóginn því veðurskilyrði eru einfaldlega allt önnur nú en þau voru áður. Nýverið fengu þau fellda aðra hverja ösp innan úr einu stóru skjólbelti í Vallanesi. Þau báðu Skógarafurðir að saga timbrið í fjalir og voru í óðaönn að klæða nýtt gistiheimili með viðnum. Í Vallanesi stendur veitingahús sem er að megninu til byggt úr heimafenginni ösp og gengur húsið undir nafninu Asparhúsið. Þau hafa keypt tvo ofna hjá Tandrabretti sem mata má bæði með viðarperlum og kurli. Með tilkomu ofnanna munu þau geta nýtt umfram grisjunarvið síns eigin skógar til að hita allan húsakost á jörðinni og er gróðurhúsin þar með talin.
Húsakynni sveitastjórnarskrifstofu Fljótsdalshrepps hafa í yfir fimm ár verið hituð með viðarperlum frá Ilmi. Sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, Helgi Gíslason, var á árum áður fyrsti framkvæmdastjóri Héraðsskógar. Hann hefur fylgst með trjánum vaxa á Héraði í gegnum árin og segir að bændaskógræktin hafi fært sveitinni nýtt og búsældarlegra líf. Sauðfjárbændur beita búpeningi í skógana sína glaðir í bragði. Búseta hefur haldist og ef til vill braggast. Heilsusamlegir útivistarmöguleikar eru í skógunum fyrir íbúa og gesti á Egilsstöðum, allan árin ársins hring. Þetta segir Edda Björnsdóttir, skógarbóndi og fyrsti framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda. Hún býr á Miðhúsum sem er í útjaðri Egilsstaða. Á Miðhúsum eru elstu trén yfir 30 ára gömul. Hún tekur vel eftir aukinni umferð í skógi sínum sem og skógum almennt á Héraði. Fólk er fyrst og fremst að stunda útivist en einnig er það að nýta afurða skógarins svo sem berja og sveppa.
Áhrif bændaskógræktar gætir víða um sveitir Austanlands og eru sennilega mun meiri en samtímamenn þorðu að vona þegar verkefni Héraðsskóga fór af stað á hinni öldinni. Nú vaxa upp skógar víðar en á Héraði og er uppvaxandi skógur nú í grennd við nær öll þéttbýli landshlutans. Skógar bænda eru eftirsóknarverðir til útivistar, timburnytja, matvælaframleiðslu og til að glæða samfélög lífi inn í komandi framtíð. Ekki er gott að segja hvað hefði orðið um bændur á Héraði ef ríkið hefði lagt hönd á bagga. Ríkisstudd skógrækt fyrir bændur í búrekstri hefur skilað sér enn búsældarlegri sveit þar sem nú er ekki einungis suðrænna loftslag heldur eru skógarnir líka farnir að veita störf og skapa tekjur fyrir bændur og samfélagið allt.
MYNDBAND
Ljósmyndir
Stórvirk flettisög hjá Skógarafurðir ehf.
Hjörtur leggur við hlustir þegar Helgi Gíslason segir frá sögu Héraðsskóga.
Eygló stendur við afgreiðsluborðið í Asparhúsinu á Vallanesi.
Kindiaðstaðan á Vallanesi er klædd viði sem fengin er úr skóginum þar. Fyrir húsið stendur er danskur TP kurlari.
Hörður sýnir Hirti og Jóhanni Gísla glænýjar lerkiskífur.
Ösp úr skjólbeltum á Vallanesi eru söguð í fjalir, færð í stæður og þurrkuð hjá Skógarafuðir ehf.
Hlynur, Hjörtur, Eymundur, Bjarni og Jóhann Gísli stilla sér upp við kyndiaðstöðuna á Vallanesi. Mynd Eygló.
Formenn skógarbænda á landsvísu saman komnir. F.v. Hjörtur Bermann Jónsson, núverandi formaður búgreinadeildar skógarbænda hjá BÍ, Edda Björnsdóttir, fyrsti formaður landssamtaka skógareigenda og Jóhann Gísli Jóhannsson sem hefur gegnt báðum stöðum.
Vinnslustöð viðarperlnanna hjá Tandrabretti er tilkomumikið mannvirki.
Sjóðheitar viðarperlur í pressunarferli.
Einar Kristjánsson segir frá vinnslulínunni við viðarpeluframleiðsluna. Að baki þeim er myndarleg lerkiviðarstæða sem á rætur að rekja á Hérað.
Bændablaðið 15.maí 2024
Comments