Höfundur: Dagbjartur Bjarnason, stjórnarmaður í búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ.
Samstaða meðal skógarbænda á Norðurlöndum á sér aldalanga sögu. Þó hvert og eitt land eigi sína sérstöðu og sérhver landshluti hvers lands enn aðra sérstöðu þá standa allir saman í nafni skógræktar í blíðu og stríðu. Samstöðumátturinn er mikill og minnir á fjölskyldukærleika.
Þann 14. október í Karlshamn í Suður-Svíþjóð var ársþing Norðurlandasamtaka skógarbænda; NFS Rådsmöte (NFS, enska: Norwegian Forest Owners' Federation, skandina- víska: Norsk Skogeierförbund)). Íslenskum skógarbændum er alla jafna boðið að senda fulltrúa á þingið og taka þátt í starfinu. Stjórn búgreinadeildar skógarbænda innan BÍ beið ekki boðanna og á þingið mætti stjórnarmaðurinn Dagbjartur Bjarnason og kona hans, Guðrún Steinþórsdóttir, skógarbændur á Brekku í Dýrafirði.
Það er engu líkara en það sé meiri samstaða um skógrækt hérlendis heldur en er milli Skandinavíu og syðri hluta Evrópu. Ástæðurnar rekja rætur sínar í grunnhyggni og skilningartrega gagnvart mikilvægi skógarumhirðu. Málefnin eru af ýmsum toga, allt frá LULUCF- orðaglingri yfir í ofsaverndun skóga. Þegar skógarbændur tala fyrir málstað skógarbænda eru þeir ekki síður að tala um málstað íbúa jarðarbúa, því líkt og fyrri daginn er skógur undirstaða lífs á jörðinni. Vel hirtur skógur er ekki bara sjálfbær heldur er hann líka frábær. Hér má skilja orðið „frábær“ að skógarauðlindin gefur FRÁ sér loft, við, mat, vöxt, skjól, vatn, föt, ... á sjálfbæran, arðbæran og reyndar frábæran hátt líka ef persónulegar skoðanir eru teknar með í umræðuna. Deilumál ytra snúast meðal annars um að friða þurfi skóginn til að vernda, á meðan verndarsinnar virðast ekki átta sig á öllum þeim hættum og neikvæðu afleiðingum sem af þess háttar vernd getur hlotist við að vanrækja hefðbundna umhirðu skóganna. Bersýnilega er stöðvun viðarnytja úr skógi uggandi og sést það best á aukinni tíðni skógarelda um heimshlutana. Auk þess er mikið deilt um óstjórn á skógarauðlindinni því Evrópusambandið vill miðstýra skógrækt í meira mæli sem dregur úr tækifærunum sem felast í stjórnun skóga heima í héruðum landanna.
Hefðbundin skógrækt er stöðugleiki inn í framtíðina. Hvergi er þó slakað slöku við í nýsköpun. Það virðist alltaf vera hægt að vinna meira úr viði en maður hefði haldið. Fundargestum var boðið til bæjarins Mörrum að skoða nýstárlega viðarvinnslu, sprottin úr rifjum samvinnu sænskra skógarbænda. SÖDRA er samvinnufélag 52.000 skógarbænda í Suður-Svíþjóð og þar vinna þrjú þúsund manns. Þessi verksmiðja, SÖDRA, vinnur eftir kjörorðunum „Skila, skapa og skerða“ (return, revive, reduce) og framleiðir textílplötur búnar til úr trefjum sem samanstanda af 80% timbri (sellulósa) og 20% endurunninni bómull. Þessum textílplötum hefur verið gefið nafnið OnceMore® og er hægt að vinna úr þeim þráð til tauframleiðslu sem hægt er að nota í fatasaum eða aðra tauvinnslu.
Þessi hringrás sem OnceMore hefur skapað gefur fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum tækifæri á að taka þátt og leggja virðiskeðjunni enn frekar lið auk þess að leggja sitt af mörkum við umhverfið. OnceMore skapar fjölda starfa og á allt að þakka ábyrgri nýtingu skóga.
Stóru skógarþjóðirnar, Finnar, Svíar og Norðmenn, eru vitanlega mest áberandi í timburgeiranum en við litlu þjóðirnar, Danmörk og Ísland, getum lært töluvert af af þeim og mögulega þeir af okkur. Það er alveg spurning hvort ekki fari að koma tími á að íslenskir skógarbændur gangi formlega til liðs við NFS skógarfjölskylduna. Þannig getum við haft áheyrn og jafnvel áhrif. Til dæmis geta íslenskir bændur átt töluverða möguleika á að leggja loftslaginu lið með kolefnisbindingu í nýskógrækt og timburnytjar í kjölfarið. Auk þess er skandinavíska þekkingin á t.d. skógarumhirðu mun tæknivæddari og skipulagðari en hér tíðkast.
Það er hermt upp á skógrækt að hún sé ákaflega tímafrek og taki ár og aldir uns hún verði að verðmætum nytjaskógi. Það má vel vera rétt, en þetta er þó allt spurning um hugarfar. Fjölskylduskógrækt er lýsandi og gott hugtak sem útskýrir með umhyggju og alúð það hugarfar sem skógrækt felur í sér. Tré skóganna munu standa vörð um komandi kynslóð og vonandi enn lengur. Ræktunin felur í sér alúð inn í framtíðina og allir fjölskyldumeðlimir geta tekið þátt. Skógurinn verður miklu meira en nytjaskógur og íverustaður til leiks og starfa, heldur mótar hann faðm um jörðina, fólkið og dýr merkurinnar líkt og kærleiksrík fjölskylda kynslóð fram á kynslóð. Skógrækt er frábær.
Birtist fyrst í Bændablaðinu
Comments