Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum 2025
- Skógarbændur
- Jun 30
- 5 min read
Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum 2025
Aðalfundurinn var haldinn á Laugarhóli í Bjarnarfirði laugardaginn 14. júní 2025. Á undan fundinum var boðið upp á súpu fyrir þá sem komu langt að á fundinn.
Formaður félagsins, Lilja Magnúsdóttir, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Á fundinum voru um 20 manns og hófst fundurinn á hefðbundnum aðalfundarstörfum. Í skýrslu stjórnar var sagt frá málþingi sem haldið var á Laugum í Sælingsdal í október 2024 og tókst vel. Á undan málþinginu var sameiginlegur fundur stjórnarmanna í skógarbændafélögum á landsvísu þar sem rædd voru sameiginleg hagsmunamál félaganna. Á seinni hluta fundarins komu síðan formaður SkógBÍ og formaður Bændasamtakanna og tóku þátt í umræðunum. Fundarmenn voru sammála um að efla og styrkja búgreinadeild skógarbænda innan Bændasamtakanna með því að hvetja skógarbændur um allt land til að ganga í Bændasamtökin og fá þannig aukinn slagkraft í hagsmunabaráttu skógarbænda. Einnig voru fundarmenn sammála um að skógarbændafélögin um allt land væru mikilvægur þáttur fyrir samskipti heima í héraði, tenging við grasrótina og til að búa til aðlaðandi umhverfi fyrir skógarbændur. Félögin okkar eru líka vettvangur fyrir ályktanir og baráttumál sem SkógBÍ kemur á framfæri við ríkið og aðra aðila.
Einnig kom fram í skýrslu stjórnar að ákveðið var að stofna til leshópa í héraði að sunnlenskri fyrirmynd. Leshópur var stofnaður á norðanverðum Vestfjörðum og hefur hópurinn komið saman tvisvar í vor og ætlunin er að hittast aftur í haust. Leshóparnir lesa sér til um ákveðin málefni fyrir hvern fund sem eru haldnir tvisvar á ári og þar er viðkomandi málefni rætt auk þess sem reynt er að fara út og skoða skóga hjá skógarbændunum sem taka þátt.
Skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykktir, stjórn gaf öll kost á sér áfram og var endurkjörin. Á fundinum gengu sjö nýir félagar í Félag skógarbænda á Vestfjörðum og var þeim vel tekið.
Hjörtur Jónsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda innan Bændasamtaka Íslands, SkógBÍ flutti ávarp, kynnti sig og sagði frá starfi búgreinadeildarinnar innan Bændasamtakanna. Mikil vinna hefur farið í að ræða skipulagsmál og framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt. Mismunandi nálgun er milli sveitarfélaga á túlkun skipulagslaga. SkógBÍ hefur lagt mikla áherslu á umræðu um að skógrækt sé landbúnaður og eigi því heima þar sem landbúnaðarland er skipulagt í aðalskipulagi. Einnig sagði hann frá þátttöku Íslands í alþjóðastarfi og þeim möguleikum sem slík þátttaka getur opnað fyrir íslenska skógarbændur.
Einnig minntist Hjörtur á málþing skógarbændafélaganna sem verður haldið í Kjarnaskógi 11. okt. Í haust og er jafnframt nokkurs konar árshátíð. Heimasíða SkógBÍ er www.skogarbondi.is og þar má finna allar upplýsingar um það sem er í gangi hjá deildinni og hjá félögunum um allt land. Hjörtur Jónsson hvatti skógarbændur til að gerast félagar í SkógBÍ og Bændasamtökunum til að efla starf og félagssamstöðu skógarbænda. Ábending kom fram um nauðsyn þess að vekja betur athygli á hvað felst í aðild að SkógBÍ.
Hrefna Jóhannesdóttir, sviðsstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og skógi flutti ávarp og sagði frá starfi sínu og hvað fælist í því starfi. Hennar svið sér um skógrækt á lögbýlum samkvæmt reglugerð sem er í endurskoðun ásamt skjólbeltarækt og skjóllundaræktun og vonandi aukast umsóknir í þá ræktun.
Hrefna sagði frá starfi Lands og skógar og þeim verkefnum sem stofnunin vinnur að sem eru mörg og fjölbreytt. Framundan er mikil þörf fyrir grisjun og viðarvinnslu og hvað tekur við þegar samningum sem gerðir voru til 40 ára lýkur. Framlög frá ríki til skógræktar hafa rýrnað milli ára sem setur einnig strik í reikninginn við skipulag skógræktar á bújörðum og framkvæmdir sem þarf að fara í á hverju ári svo sem við slóðagerð og margt annað.
Á fundinum lagði stjórn fram tvær tillögur að ályktunum, annars vegar um menntun skógræktarráðgjafa hjá
Land og skógi svo hljóðandi:
Ályktun um menntun skógræktarráðgjafa hjá fagstofnun skógræktar
Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum haldinn að Laugarhóli í Bjarnarfirði 14.06.2025 leggur áherslu á nauðsyn þess að á öllum starfssvæðum Lands og skógar séu ráðnir ráðgjafar með skógfræðimenntun til að leiðbeina skógarbændum um ræktun og umhirðu skóga sinna.
Skógfræðingar búa yfir yfirgripsmikilli alhliða þekkingu á náttúrufræði, vistfræði, kortlagningu lands og kortagerð sem er nauðsynleg fyrir gerð skógræktaráætlana. Faglega unnar skógræktaráætlanir eru grundvallaratriði í ræktun þessarar auðlindar svo að vel takist til hjá nýjum skógarbændum. Þá eru skógfræðingar sérfræðingar í undirbúningi skógræktar, umhirðu ungskógar, slóðagerð, grisjun og trjáfellingum sem eru allt atriði sem hinn almenni skógarbóndi þarf á ráðleggingum og leiðbeiningum að halda þannig að skógurinn hans vaxi og dafni.
Skógarbændur leggja áherslu á nauðsyn þess að hafa aðgang að sérþekkingu skógfræðinga til að fá svör við öllum þeim spurningum sem vakna við að hefja skógrækt og mikilvægt að slíkt aðgengi sé tryggt með reglulegum heimsóknum, símtölum og tölvupóstum.
Greinargerð
Skógrækt á Íslandi er ung atvinnugrein sem þó er stöðugt að sækja í sig veðrið og skógarbændum og starfsmönnum í atvinnugreininni er sífellt að fjölga. Brýnt er að skógarbændur sem eru að hefja ræktun á jörðum sínum hafi aðgang að skógfræðingum til að fá sem skýrastar leiðbeiningar um ræktun og uppbyggingu skógarauðlindar á jörðum sínum. Með skýrum leiðbeiningum er hægt að minnka hættu á mistökum og vanhöldum í ræktun skóga á fyrstu árum ræktunarinnar sem eykur líkur á að uppbygging skógarauðlindarinnar takist vel til. Mikið er í húfi að vel takist til á fyrstu árum ræktunarinnar þar sem gera má ráð fyrir að viðkomandi skógur sé að vaxa upp í áratugi og skila afurðum til eigenda sinna allan þann tíma.
Tillagan að ályktuninni var samþykkt með þorra greiddra atkvæða. Ályktunin verður send til Lands og skógar, SkógBÍ og til Skógfræðingafélags Íslands.
Hin tillagan var um skipulagsmál skógræktar svo hljóðandi:
Ályktun um skipulagsmál skógræktar
Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum haldinn að Laugarhóli í Bjarnarfirði 14.06.2025 leggur áherslu á nauðsyn þess að sveitarfélög þrengi ekki að skógrækt með hertum reglum um stærðarmörk og með því að herða reglur um skipulag skógræktar í skipulagi sveitarfélaganna. Minnt er á að Skógræktin, nú Land og skógur, hafa í samstarfi við Skipulagsstofnun staðið að útgáfu bæklingsins Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga (IV. útgáfa 2023) þar sem skýrar leiðbeiningar eru um málsmeðferð og gögn sem leggja þarf fram við gerð skógræktaráætlana og ætti því ekki að þurfa að vera mismunandi kröfur milli sveitarfélaga. Skógrækt er eins og hver önnur landnýting og á því heima á landbúnaðarlandi.
Greinargerð
Á undanförnum árum hafa ítrekað komið upp dæmi þess að skógarbændum sé gert erfitt fyrir að hefja skógrækt á sínu landi eða auka við hana. Sem dæmi má nefna stærðarmörk skógræktar þar sem eitt sveitarfélag vill þrengja að skógrækt með takmörkun stærðar nýrra skóga umfram það sem krafist er í viðkomandi lögum og reglum. Í öðru sveitarfélagi er skógarbændum gert að láta gera breytingu á aðalskipulagi þar sem land er skilgreint sem landbúnaðarland en skilgreina þarf sérstaklega land fyrir skógrækt í aðalskipulagi. Önnur sveitarfélög hafa sett strangar kröfur um skipulag skógræktar sem geta reynst skógarbændum erfiðar og kostnaðarsamar að uppfylla.
Tillaga að ályktuninni var samþykkt með þorra greiddra atkvæða. Ályktunin verður send til allra sveitarfélaga á Vestfjörðum, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnunar og SkógBÍ.
Eftir fundinn á Laugarhóli buðu hjónin í Sandnesi, þau Signý og Benedikt, í skógargöngu í skóginum sínum þar sem fundarmenn áttu góða stund og gott spjall.

Comments