Hamprækt á Íslandi?
Bændasamtök Íslands (BÍ), í samstarfi við Hampfélagið, lögðu nýlega fram könnun sem er opin öllum áhugasömum til 15. ágúst. Könnunin er aðgengileg á heimasíðum og samfélagsmiðlum félaganna, bondi.is og hampfelagid.is.
Hamprækt á Íslandi er fjarlæg hugmynd í augum margra en það var kartaflan líka þegar hún var fyrst kynnt fyrir Íslendingum fyrir þremur öldum. Enginn hefur farið varhluta af kartöflum. Það er ærin ástæða til að trúa á að iðnaðarhampur geti orðið að nýrri „kartöflu” fyrir íslenskan landbúnað. Sú ímynd af hampi sem náð hefur að skjóta hvað dýpstum rótum hérlendis er væntanlega sprottin frá Bandaríkjunum á tímum hippana en þá fékk hampurinn orð á sig fyrir að vera eiturlyf. Allur annar ávinningur hamplönturnar féll þar með í skugga þessarar heila sljófgandi áhrifa og þannig hefur það bara verið.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar og í dag hafa vísindamenn náð orðstír hampsins aftur til vegs og virðingar. Það er nefnilega fjölmargt sem hampplantan getur gefið okkur. Sumir segja að hampur sé eina plantan sem æðri máttarvöld hafi ætlað manninum því hún veitir flest það sem mannveran þarfnast. Fyrir utan afurðir eins og trefjar í föt, stöngla í steypu og olíur til heilbrigðis má nefna jarvegsbætir og kolefnisbindingu.
Ýmsir frumkvöðlar hafa prófað að rækta iðnaðarhamp hérlendis og er árangurinn misjafn,rétt eins og við var að búast; því þekking og reynsla er mis langt á veg komin. Þeir sem hafa náð tökum á ræktuninni hefur þó tekst að sýna fram á að ræktunin er auðveldari en marga hefði grunað. Áskorunin nú, er að skilgreina viðráðanleg markmið og finna viðeigandi markað fyrir þá afurð sem ætlunin er að rækta. Þá þarf að vita hvaða möguleikar eru fyrir hendi; hvar, hve mikið og fleira eftir því.
Tilgangur könnunarinnar er að safna upplýsingum til greiningar núverandi stöðu iðnaðarhampræktar hérlendis og kanna mögulegt umfang hampræktar út frá því. Með viðunandi fjölda svara úr könnuninni má reikna með að hægt verði að áætla hvar á landinu sé mestur áhugi á hamprækt, hvaða landkostir eru til umræðu, flatarmál mögulegs ræktunarlands og ytri skilyrða og upp úr þeim gögnum má til dæmis gera útreikning á mögulegu framboði hráefnis og setja í samhengi við vaxandi eftirspurn..
Könnuninn er gerð til að vinna að framgangi iðnaðarhampræktar á Íslandi.
Höfundar:
Hlynur Gauti Sigurðsson, sérfræðingur hjá BÍ og félagmaður í Hampfélaginu.
Þórunn Þórs Jónsdóttir, stjórnarformaður og einn af stofnendum Hampfélagsins.
Fyrst birt í Bændablaðinu 20.júlí 2023
Comments