top of page

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki.

Höfundur: Einar Birgir Kristjánsson

Framkvæmdastjóri Tandrabretta ehf



Tandrabretti ehf hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðslu þar sem hráefnið er ýmist úr íslenskum skógum eða úrgangstimbri ýmiss konar.


Viðarperlur hafa margt til síns ágætis, eru notaðar sem undirburður undir hesta og sem orkugjafi. Varan er þegar orðinn talsvert þekkt undir vörumerkinu Ilmur. Í þessum pistli ætla ég að fjalla um verkefni þar sem viðarperlur úr íslensku lerki voru notaðar sem orkugjafi í stað olíu.


Þegar timbri er umbreytt úr hrávið í viðarperlur verður til formuð og pressuð afurð  sem er orkuríkari en óunnið timbur á þyngdareiningu. Auðvelt er að stjórna brennslu viðarperla þar sem einingarnar eru staðlaðar og innihalda lítinn raka. Perluofnar nútímans eru útbúnir stýringum svo ávallt sé rétt hlutfall  eldsneytis og súrefnis í brunahólfinu til þess að hámarka nýtinguna og lámarka útblástur. Yfirleitt er ekki sjáanlegur reykur úr perluofnum. Samkvæmt stöðlum ESB er brennsla á viðarperlum skilgreind umhverfisvæn þar sem ekki er heilsuspillandi mengun frá þeim og kolefnið sem losnar við bruna er hluti af kolefnishringrás andrúmsloftsins öfugt við kolefni úr jarðefnaeldsneyti sem er hrein viðbót við það kolefni sem nauðsynlegt er öllu lífi á jörðu. Einnig er samkvæmt reglum ESB leyfilegt að starfrækja perluofna inn í íbúðabyggðum án sérstaks leyfis vegna áður greindra kosta brunans.


Á Íslandi höfum við búið við gnægð orku undanfarin ár, orku sem er afar umhverfisvæn og auðveld í notkun. Það má segja að við búum við forréttindi að geta keypt heitt vatn eða rafmagn á verði sem  er aðeins brotabrot af því verði sem nágrannaþjóðir okkar búa við. Nú er hún Snorrabúð stekkur og er ljóst að ekki eru ótakmarkaðar orkuauðlindir á Íslandi frekar en annarsstaðar og í nútíma neyslusamfélagi hrannast úrgangur upp með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum, þá þarf að grípa til aðgerða, margskonar aðgerða sem að falla að ólíkum aðstæðum.


Á síðastliðnum vetri fékk Tandrabretti tækifæri til að gera alvöru tilraun að framleiða hitaorku með viðarperlum fyrir hitaveitur í Fjarðabyggð, þar sem á liðnum vetri varð orkuskortur á Íslandi og brenna þurfti  þúsundum tonna af olíu með tilheyrandi kolefnisspori til þess að mæta orkuskortinum. Skemmst er frá því að segja að með því að setja upp perlukatla ásamt aðhaldsaðgerðum sveitarfélagsins tókst að komast hjá því að brenna olíu við hitaveitur Fjarðabyggðar.


Tölulegar upplýsingar

Á tímabilinu frá miðjum janúar sl. Fram til byrjum maí voru í Fjarðabyggð framleiddar með viðarperlum 2.250 megawattsstundir í formi heits vatns. Til framleiðslunnar þurfti 490 tonn af viðarperlum, en hvert kg af viðarperlum skilar um 4,5 kwh.  Ef að orkugjafinn hefði verið olía hefði verið notað u.þ.b. 225 þúsund lítrar og kolefnislosun verið um 550 tonn af jarðefnakolefni. Fjárhagslegur ávinningur Fjarðabyggðar var 17 milljónir króna, sem er mismunurinn á kostnaði við nota perlur frekar en olíu sem eldsneyti, auk þess sem beint skattaspor framleiðslunnar var um 3,5 milljónir


Við höfum áætlað kolefnisspor þessa verkefnis og borið það undir sérfræðinga. Til orkuvinnslunnar í vetur var eingöngu notast við lerki úr skógum á Fljótsdalshéraði. Var þetta grisjunarviður sem ekki er hæfur til áframhaldandi timburvinnslu, þ.e.a.s. er ekki hæfur til flettingar. Til þess að framleiða 490? tonn að perlum þarf að grisja um það bil 25 hektara skóglendis. Úr hverjum hektara fæst við grisjum að meðaltali um 20 tonn af hráefni til perluframleiðslu og 8-10 tonn að flettivið sem notaður er til að vinna t.d. húsaklæðningar o.fl.  Samkvæmt upplýsingum frá Land og Skógum bindur einn hektari með Síberíulerki eins og mest er af á Fljótsdalshéraði um 7 tonn af koltvísýring (CO2) árlega. Til að hámarka tekjur af skógrækt og viðhalda heilbrigði skóganna þarf að hirða um þá og grisja, til að skapa vaxtarrými fyrir þá einstaklinga sem eru af mestum gæðum og viðhalda góðum vexti og þar með talið kolefnisbindingu. 


Líftími lerkiskóga er langur, en vöxtur og kolefnisbinding minnka verulega við 50-60 ára aldur enda má reikna með að við þann aldur sé skógurinn orðinn að verðmætu hráefni til viðarvinnslu. Við brennsluna á þeim 490 tonnum af perlum sem notuð voru í vetur var kolefnislosun um 500 tonn af koltvísýring sem er hlutlaus losun. Ef hins vegar þessi vinnsla og notkun á grisjunarvið er sett í samhengi með nýtingu skógar, skógarheilbrigði og umhirðu, þá má rökstyðja að aðgerðin sé kolefnisjákvæð og muni hjálpa skógunum að framleiða verðmæta vöru og binda kolefni næstu 25-30 ár. Því má draga þá ályktun að losun okkar á 500 tonnum af koltvísýring sé eðlilegur þáttur í því að skógurinn sem grisjaður var, geti á 50-60ára líftíma bundið um 9-10 þúsund (Ef hektarinn er að binda 7 tonn koltvísýrling hektara og ár þá er hektarinn að binda 350 tonn af koltvísýrling á 50 árum) tonn af kolefni. Þannig að ávinningurinn er mikill.


Jákvæð umhverfisáhrif

Að framansögðu er ljóst að umhverfisáhrif þess að kynda með viðarperlum eru mjög jákvæð auk þess sem hagræn áhrif á samfélagið eru góð. Ég hef ekki minnst á þau áhrif sem það hefur á skógareigendur að orðinn séu til verðmæti í grisjunarvið sem áður var skilin eftir inn í skógum, auk þess sem að áhrifin eru þau að meira er grisjað af skógum vegna þeirra tekna sem til verða. Það eru mikil tækifæri falin í skógrækt og skógarvinnslu  en til þess að hægt sé að byggja upp timburiðnað þurfa allir aðilar sem að því koma að vinna saman að uppbyggingu þar sem hver vinnslugrein er stoð annara vinnslugreina. Stjórnvöld þurfa einnig að hafa framtíðarsýn og skapa aðstæður svo hægt sé að styðja enn frekar við uppbyggingu skógarvinnslu sem styrkir byggð í sveitum landsins. Það má nefna að við grisjun skóga fellur til  eitthvað magn af flettivið sem vinnslur á borð við Skógarafurðir ehf í Fljótsdal geta nýtt sér í afurðir eins og klæðningar á hús og sólpalla svo eitthvað sé nefnt. Við þá framleiðslu fellur einnig til hráefni sem hægt er að nýta til framleiðslu á viðarperlum.


Tilraunin sem Tandrabretti stóð að í Fjarðabyggð í vetur í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld tókst að okkar mati vel, þrátt fyrir að aðstæður hafi ekki verið eins og best verður á kosið. Kyndistöðvarnar voru í gámum með tilheyrandi takmörkunum. Erfitt var að nálgast hráefnið sem að mestu var enn í stæðum inn í skógum, vegna snjóa.  Fyrirvarinn á raforkuskerðingunni var mjög lítill og þess vegna var undirbúningurinn nánast enginn. Við unnum í kappi við tímann að koma verkefninu af stað. Það er erfitt rekstrarumhverfi fyrir okkur sem einkafyrirtæki að búa við  rekstraóvissu til framtíðar og nær ómögulegt. Nauðsynlegt er að stjórnvöld komi að því hvernig  hitaveitur sem nýta svokallaða skerðanlega orku, tryggi varaafl annað en olíu. Með fyrirsjáanleika er hægt að byggja upp kyndistöðvar sem nota viðarperlur sem varaafl á hagkvæman hátt.


Tilraunaverkefni af þessu tagi er ekki gerð nema með aðkomu fleiri aðila og viljum við sem stöndum að Tandrabrettum nefna  Land-og Skóga sem hafa komið að grisjunarverkefnum til að tryggja hráefni í okkar vinnslu. Verkefnið hefur notið mikilvægra styrkja frá Orkusjóði til kaupa á nauðsynlegum búnaði.  Mikilvægt var einnig að bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð höfðu trú á verkefninu og unnu þétt með okkur að framgangi þess.


Við hjá Tandrabrettum gerum okkur grein fyrir að viðarperlur úr íslenskum skógum eru ekki heildarlausn gegn orkuskorti á íslandi en með skynsamlegum aðgerðum yfirvalda getur brennsla þeirra verið jákvæður þáttur í hagnýtri orkuöflum og kolefnisbindingu íslenskra skóga.
















Frétt var fyrst birt í Bændablaðinu 11.júní 2024



Comments


bottom of page