top of page

Þegar heimasveitir urðu afréttur

Frétt úr Bændablaðinu


Þegar heimasveitir urðu afréttur


„Í stjórnmálum gerist ekkert fyrir tilviljun. Það sem gerist getur þú verið viss um að var með ráðum gert.“ (Franklin D. Roosevelt)


Breyta stjórnarskránni

Þótt þingmenn vinni drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins er þeim að sjálfsögðu frjálst að vinna að breytingum á grundvallarlögum þjóðarinnar, ef sannfæring þeirra stendur til þess. T.a.m. ef metnaðarfullur landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins vildi árið 2002 gefa sauðkindinni umgangs- og beitarrétt í annarra manna heimalöndum, hefði honum verið frjálst að vinna að breytingum á stjórnarskránni í þá veru að beitarréttur kinda gengi framar eignarrétti landsmanna. Hann hefði getað lagt til að 72. gr. stjórnarskrárinnar skyldi breytt þannig:


Kindur í lausagöngu eiga umgangs- og beitarrétt í öllum löndum utan þéttbýla. Að öðru leyti er eignarrétturinn friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.


Líklega hefur ráðherrann fundið sig í þröngri stöðu við að sa


nnfæra þingheim um að setja kindurnar hans í stjórnarskrána.


Skiljanleg lagagrein

Þá hefði mátt reyna að sannfæra þingheim um að kindur fengju beitarrétt í svokölluðum „ófriðlýstum“ löndum, og fylgja því eftir með tillögu í skiljanlegri lagagrein:


Kindur í lausagöngu eiga umgangs- og beitarrétt í öllum löndum sem ekki eru sérstaklega friðlýst. Friðlýst land skal vera girt dýrheldri girðingu sem skal árlega vottuð af búnaðarsambandi, friðlýst af umráðamanni, tilkynnt sveitarstjórn og auglýst í Stjórnartíðindum.


Trúlegt er að ráðherrann hafi talið að slík grein fengi slæmar undirtektir hjá þingheimi. Umráða- og eignarréttur allra landeigenda væri varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar og hjákátlegt að skylda landeigendur í þrautagöngu við að friðlýsa lönd sín til þess eins að fá að ráða þeim áfram. Þá væri viðbúið að flestir þingmenn teldu löggjafann ekki geta hirt bótalaust umráðaréttinn af þeim sem gætu ekki, eða vildu ekki, friðlýsa löndin sín. Ráðherrann kann að hafa metið stöðuna þannig að fá atkvæði fengjust utan eigin flokks.


Lagalauma

Ástæðulaust var þó að gefast upp í því gríðarlega mikilvæga verkefni ráðherrans að útvega kindaeigendum lögmæta beit fyrir skepnurnar sínar í löndum nágranna sinna. Líklega var einhverjum innvígðum falið að semja laumu um upptöku á eignarrétti þeirra. Hún þyrfti að hljóma eins og verið væri að gefa þeim einhverja heimild þó í raun væri verið að svipta þá umráðarétti á löndum sínum. Laumunni var komið fyrir í frumvarpi um búfjárhald og hljómaði svona:


Umráðamanni lands er heimilt að ákveða að tiltekið og af


markað landsvæði sé friðað svæði og er þá umgangur og beit búfjár þar bönnuð.

Eini tilgangur laumunnar er ósögð gagnályktun, þ.e. að þar sem umgangur og beit kinda væri nú bönnuð í „friðlýstum“ löndum væri hún þar með leyfð í „ófriðlýstum“ löndum! Að það hafi verið tilgangur og afleiðing laumunnar má lesa um í nýfengnu áliti sveitarstjórnarráðuneytisins. Aðrar setningar laumunnar tiltaka svo þrautirnar sem landeigendur skulu leysa, og borga, til að fá land sitt friðlýst (enn hefur ekkert land verið friðlýst).



Laumast með laumuna

Það misfórst hjá ráðherranum að nefna laumuna einu orði í annars ítarlegri kynningu sinni á frumvarpinu um búfjárhald fyrir þingheimi. Gagnályktunin um eignaupptökuna sem verið var að lögleiða, rataði hvergi í tal eða texta. Ekki frekar en hún væri ekki til. Þá gleymdist alveg að upplýsa þingheim um að lauman gengi þvert á allan 4. kafla „Ólafslaganna“ nr. 6/1986 um afréttamál, sem efnislega hafði verið í gildi frá þjóðveldisöld. Kaflinn veitir öllum landeigendum margvísleg úrræði við ágangsfé ásamt því að gera kindeigendur ábyrga fyrir tjóni af völdum skepnanna þeirra. Þessi ákvæði sem gilt höfðu svipað lengi og byggðin í landinu þurfti nauðsynlega að vængstýfa, en ástæðulaust að upplýsa þingheim um slíkt smáatriði. Þegar svo landbúnaðarnefnd þingsins missti af laumunni var slagurinn unninn. Kynninga-, skýringa- og umræðulaust gerði elsta starfandi löggjafarsamkoma veraldar enn eldri umráðarétt landeigenda upptækan og breytti heimasveitum landsins í einn risastóran beitarafrétt fyrir rollur! Það var þó nokkuð dagsverk hjá löggjafanum – þó óvitandi væri.


Kúabú afréttir kindabúa

Þann 1. maí 2002 urðu nytjatún kúabóndans að lögmætum beitarafrétti nágrannans sem á kindur. Og þegar túnþjófarnir mæta snemmsumars á nytjatún kúabóndans skulu þeir látnir óáreittir sumarlangt eða allt þar til kúabóndanum er gert að smala lönd sín fyrir kindaréttir. Sama gildir fyrir landeigendur sem stunda kornrækt, nautaeldi, garðyrkju, skógrækt, ferðaþjónustu eða hvað annað. Árið 2002 fékk kindaeigandinn í sveitinni beitarítak hjá þeim öllum! Löngu eftir að Alþingi eða dómstólar fella lagalaumuna úr landslögum verður hún áfram órækur vitnisburður um hvað grjótharðir sérhagsmunir leyfa sér – þegar af þeim er litið.



Kristín Magnúsdóttir, lögfræðingur og landeigandi.



Bændablaðið

9.sept 2021

17.tbl 2021

bls 56





bottom of page