top of page

„Skógur nú og til framtíðar”

Skógardagur á Suðurlandi miðvikudaginn 23. ágúst 2023.

Félag skógarbænda á Suðurlandi bauð upp á kynnisferð um nytjaskógrækt og skjólbeltarækt á Suðurlandi. Markmið ferðarinnar var að fræða og fræðast um nytjaskógrækt á Suðurlandi. Farið var á nokkra vel valda staði þar sem skógarbændur leiddu hópinn inn á milli gróskulegra trjáa. Allt var vel skipulagt og var lagt mikið upp með að þátttakendur tækju þátt í umræðum um fyrirfram skipulögð og valin málefni úti í skógi, sem höfðu áður verið birt í útsendri dagskrá. Mikilvægur þáttur í svona ferð er að styrkja tengslanet innan skógargeirans, bæði milli skógræktenda og eins við þá sem veita skógarbændum þjónustu á öllum sviðum. Það kom vel í ljós, á þessum sólríka og fallega degi, að skiptast á skoðunum úti í skógi getur gert mikið til að fræða og fræðast og auka skilning á mikilvægi skjólbelta og skóga.


Í ferðina komu, auk skógarbænda, fulltrúar frá Skógræktinni á Suðurlandi og rannsóknarstöðvar á Mógilsá, sviðsstjórar frá Skógræktinni og skógræktarstjóri. Einnig komu fulltrúar Garðyrkjuskólans/FSU á Reykjum, Landgræðslunnar, plöntuframleiðenda, stjórnmálaflokka, þjónustuaðila í skógrækt, fulltrúar skógræktarfélaga, ásamt fulltrúa skógardeildar BÍ. Alls tóku 65 manns þátt í ferðinni. Áhersla var lögð á skjólbelti, aðrar nytjar og umhirðu skóga, rannsóknir og nýjar áherslur skógarþjónustu Skógræktarinnar.Full rúta fróðleiksþyrstra skógræktenda lagði af stað frá Selfossi stundvíslega kl 9:00 áleiðis að fyrsta áfangastað sem var á Reykjum á Skeiðum. Innan um vöxtuleg skjólbeltin spókuðu sig kýr sem áttu það til að slá um sig, með halanum. Án þess að svara því beinum orðum þótti það alveg kýrskírt að þær voru ánægðar með skjólbeltin en þau voru einmitt fyrsta efnið til umræðu: ”Skila skjólbelti sínu hlutverki?”. Hallur Björgvinsson, ráðunautur hjá Skógræktinni, fór yfir sögu skjólbelta á Íslandi. Hann sagði frá ferð sem félagar hjá Skógræktarfélagi Íslands hefði farið til Danmerkur 1991 í boði danska Heiðafélagsins. Þegar heim var komið hófu félagar í Skógræktarfélagi Árnesinga upp hakann og lögðu út fyrsta skjólbeltið. Líkt og enn er gert var það blanda af fljótvaxta víði í bland við alaskaaspir eða önnur tré. Gjarnan voru gróðursettir berjarunnar inn á milli, meðal annars til að gleðja enn frekar fiðraða vini okkar. Fyrst um sinn fengu bændur í búskap styrki frá sveitarfélögunum til að girða í kringum fyrirhuguð skjólbelti. Því næst tóku landshlutabundin skógaræktarverkefni við keflinu og var þá bætt um betur því bændur fengu einnig styrk fyrir plöntukaupum og skjólbeltaplasti. Vinnuna, tækin og eftir atvikum húsdýraáburðinn áttu bændur að útvega sjálfir. Á Reykjum eru skjólbeltin almennt um 20 ára gömul og má með sanni segja að þau geri sitt gagn, enda getur spretta í skjóli trjáa verið nærri tvöföld á við það sem áður þekktist.Næst var förinni heitið til hjónanna Sigríðar Jónu Sigurfinnsdóttur og Gunnars Sverrissonar að Hrosshaga í Biskupstungum. Þar vex myndar greniskógur og gjörvileg skjólbelti. Skógurinn vex svo vel að tvisvar hefur skógarhöggsvél verið fengin til að fara um skóginn og grisja. Ekki vantar timbrið.

Fyrir nokkrum árum var lagður út göngustígur um skóginn. Björn Bjarndal, forvígismaður í skógrækt á Íslandi, segir að hann hafi að minnsta kosti leitt 500 erlenda skógareigendur um þennan stíg. Það sem gerir þennan göngustíg sérstakan er hversu fróðlegur hann er. Öðru hvoru voru skilti með fróðleik og upplýsingum um skóginn og það svæði sem gengið er um hverju sinni. Fræðslustígurinn var gerður eftir sænskri forskrift en fyrr á öldinni vann íslenski skógargeirinn að verkefninu Kraftmeiri-skógur sem enn er í hávegum haft. Gefin var út bókin ”Kraftmeiri skógar” í fjölda eintaka og má telja líklegt að hver einasti skógarbóndi hafi lesið sér til í bókinni síðustu ár enda var bókin hugsuð til að efla og hvetja skógarbændur til dáða í sinni skógrækt, ekki eingöngu til yndisauka heldur ekki síður að benda á þá tekjumöguleika sem skógurinn gefur. Vafalítið er bókin á náttborði einhverra skógarbænda.

Hópnum var skipt niður í fimm minni hópa. Þannig sköpuðust fimm spjallhringir víðsvegar um skóginn þar sem aðrar nytjar skógarins voru helsta umræðuefnið. Eftir göngutúrinn var boðið upp á tómatasúpu frá Friðheimum og Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, fór með hugvekju um skóga og rannsóknir.


Síðasti áfangastaðurinn var að Galtarlæk og Borgarholti í Biskupstungum. Skógurinn á jörðunum tveimur er um 350 hektarar. Þar búa Agnes Geirdal og Guðfinnur Eiríksson. Gengið var um ákaflega vel hirtan og fjölbreyttan skóginn. Djúpar og gagnlegar vangaveltur voru um hin ýmsu stig umhirðu á leiðinni. Björgvin Örn Eggertsson, brautarstjóri í Garðyrkjuskólanum/FSU, lagði upp ýmsar spurningar fyrir þátttakendur. Rætt var um hvenær væri tímabært að grisja og hve mikið fleira eftir því. Allt veltur þetta á tilgangnum með ræktuninni en ef ætlunin er að hafa skóginn bæði til að rækta gagnvið en ekki síður að njóta hans er ekkert sem á að stoppa bændur við að snyrta skóginn vel. Agnes og fjölskylda hefur verið dugleg að tvítoppaklippa og uppkvista trén í skóginum enda ákaflega opinn og fallegur. Einnig var rætt um tegundaval og íbætur. Til gamans má geta að fjölskylda Agnesar var töluvert á undan sinni samtíð þegar þau hófu skógrækt í sveitinni. Það leit heldur illa út við fyrstu lerkigróðursetningarnar 1988 en lifun þótti ekki ýkja góð. Fyrir einhverja rælni ákváðu ráðgjafar að hafa stafafuru með á stöku stað og má segja að það hafi verið galdurinn. Upp frá furunni eru nú stærstu trén á Galtarlæk. Heimilisfólkið hefur ýmislegt fyrir stafni í skóginum. Þau hafa ræktað býflugur með góðum árangri í rúman áratug enda njóta býflugur sín vel í vel hirtum og blómlegum skóginum.


Að lokinni göngu var boðið upp á kleinur og ketilkaffi við opinn eld enda fátt notalegra. Nokkrir tóku til máls og þar á meðal sagði Hrefna Jóhannesdóttir, sviðsstjóri bændaskógræktar hjá Skógræktinni frá ýmsum áformum hjá þeim. Áhugi á skógrækt hefur sjaldan verið meiri og er allt útlit fyrir stórauknar gróðursetningar næstu árin. Auk þeirra verður að sinna umhirðu og sinna þeim skógum sem vaxa vítt og breitt um landið.


Óhætt er að segja að skógarnir á Suðurlandi vaxi og dafni. Að líta yfir afrakstur frumkvöðlanna er uppörvandi og má segja að þessi stund með skógarbændum þennan fallega miðvikudag hafi verið degi vel varið. Skógar eru svo sannarlega komnir til að vera; nú og til framtíðar.


Höfundur og myndir: Hlynur Gauti SigurðssonSkýrsla frá FsS:

Skógardagur FsS 24.08.23
.pdf
Download PDF • 1.03MB
Reykir

> Skeggrætt um skjólbelti á heimreiðinni að Reykjum

> Glæsileg skjólbelti á Reykjum á Skeiðum. Vörðufell í bakgrunni

> Kýrnar njóta sýn vel í skjólbeltunum á Reykjum

> Kýrnar njóta sýn í skjólbeltunum á Reykjum

> Sigurður á Heylæk segir skjólbeltasögur
Hrosshagi


> Við upphaf fræðslustígsins í Hrosshaga

> Vöxtuleg tré við fræðslustíginn á Hrosshaga

> Gengið og rætt um afurðir skóga á Hrosshaga

> Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Björn Bjarndal leiðangursstjóri á gangi um fræðslustíg í Hrosshaga
Galtarlækur

> Þátttakendur komnir saman í skjóli vöxtulegra trjáa á Galtarlæk


> Þátttakendur komnir saman í skjóli vöxtulegra trjáa á Galtarlæk. Gráelrir í forgrunni
Grein var fyrst birt í Bændlabaðinu: 17. tölublað 2023
Comments


bottom of page