top of page

Skógræktarsamningur
 

Skograektin-LOGO-HORIZ.jpg

Samningur um þátttöku í skógrækt
samkvæmt lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt.


Skógræktin kt. 590269-3449, skv. lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt og


Nafn kt.
skógarbóndi gera með sér svofelldan samning um nytjaskógrækt á lögbýlinu


Jörð (landnr. )
með eftirfarandi skilmálum og takmörkunum.

 


1. gr.
Skógarbóndi skuldbindur sig til að taka til nytjaskógræktar XX ha. lands. Samningi
þessum fylgir kort er sýnir afmörkun hins umsamda svæðis.
Á landinu verður stunduð nytjaskógrækt. Skógurinn er eign landeigenda og ber að haga
meðferð skógarins samkvæmt samningi þessum og eftir leiðbeiningum Skógræktarinnar.


2. gr.
Skógræktin skal hafa eftirlit með að allar framkvæmdir séu unnar samkvæmt
landsáætlun í skógrækt sbr. 4. gr. laga nr. 33/2019.
Skógræktin skal vinna ræktunaráætlun í samráði við skógarbónda. Henni skal fylgja
verklýsing á hverjum verkþætti, s.s. jarðvinnslu, slóðagerð, gróðursetningu og áburðargjöf.
Heimilt er að áfangaskipta verkefnum á skógræktarsvæðinu og fer það eftir
samkomulagi skógarbónda og Skógræktarinnar hversu mikið land er tekið til skógræktar í
hverjum áfanga. Samningsaðilar geta, ef aðstæður breytast, t.d. við fjárlagagerð, farið fram á
endurskoðun skógræktaráætlunar, m.a. um framkvæmdahraða.
Skógræktin skal gera gæðaúttektir á plöntum sem ráðstafað er til skógarbænda.
Skógræktin veitir leiðbeiningar varðandi tilhögun og frágang allra verka og ber
skógarbónda að fara eftir þeim.


3. gr.
Að loknum framkvæmdum vor og haust skal skógarbóndi skila framkvæmdaskráningu
til Skógræktarinnar. Fjárhagslegt uppgjör til skógarbónda vegna skógræktarframkvæmda hvers
árs er háð skilum á framkvæmdaskráningu á formi sem Skógræktin leggur til. Uppgjör greiðslu
framlaga fer fram að lokinni gæðaúttekt.
Skógræktin skal framkvæma úttekt á unnum verkum í samráði við skógarbónda eftir
þörfum hverju sinni. Við úttektina skulu framkvæmdir yfirfarnar og skráðar samkvæmt
úttektarkerfi sem í gildi er hjá Skógræktinni hverju sinni.
Sé framkvæmdum að einhverju leyti áfátt skal gefa skógarbónda tækifæri til að hlutast
til um úrbætur ef þess er kostur. Halda má eftir greiðslum meðan á úrbótum stendur. Ekki skal
greitt fyrir framkvæmdir sem ekki eru inntar af hendi, eru ekki í samræmi við ræktunaráætlun
eða ekki er hægt að bæta úr. Ítrekuð tilvik þar sem ekki er farið eftir ræktunaráætlun geta leitt
til uppsagnar samnings þessa skv. 10. gr.


4. gr.
Skógræktin greiðir allt að 97% af kostnaði við fyrirfram samþykktar framkvæmdir í
samræmi við ræktunaráætlun á lögbýlinu. Til kostnaðar teljast eftirfarandi framkvæmdir:
a) varsla skógræktarlands á meðan þess er þörf að mati Skógræktarinnar,
b) slóðagerð sem nauðsynleg er vegna gróðursetningar, eftirlits og umhirðu,
c) jarðvinnsla,
d) plöntukaup,
e) gróðursetning,
f) áburður og áburðargjöf,
g) umhirða ungskógar skv. umhirðuáætlun og umhirðureglum,
h) ræktun skjólbelta sem leiða til bættra ræktunarskilyrða í landbúnaði og/eða
skógrækt. Skógræktin setur lágmark á umfang skjólbelta eða skjólbeltakerfa,
i) aðrar sambærilegar framkvæmdir sem einnig eru tilgreindar í ræktunaráætlun.


5. gr.
Skógarbóndi sér alfarið um vörslu skógræktarlandsins samkvæmt reglum
Skógræktarinnar þar um.


6. gr.
Bannað er að leggja eld í skógræktarlandið eða brenna þar sinu. Þar er einnig óheimilt
að beita búfé. Skógræktinni er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar
ástæður mæla með, t.d. við nýtingu beitarskóga og þá eftir þar til gerðri beitaráætlun.


7. gr.
Skógarbónda er heimilt að fengnu samþykki Skógræktarinnar að nýta hið
samningsbundna land einnig til annarra nota enda stafi skógræktarframkvæmdum ekki hætta af
nýtingunni.


8. gr.
Skógarbónda er með öllu óheimilt að ráðstafa plöntum eða trjám sem samningur þessi
tekur til nema með samþykki Skógræktarinnar.


9. gr.
Óski skógarbóndi eða landeigandi eftir því að losa land í heild eða að hluta til undan
kvöðum samkvæmt samningi þessum áður en samningstíma er lokið skal hann endurgreiða
framlög ásamt verðbótum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Endurgreiðslufjárhæðin lækkar
hlutfallslega út samningstímann og fyrnist um 2,5% á almanaksári, hafi samningur verið virkur
í a.m.k. 10 ár, og fellur skuldin niður eftir 40 ár. Framlög sem veitt eru síðustu 10 ár fyrir
uppsögn fyrnast þó ekki.
Óski Skógræktin eftir því að losna undan skuldbindingum samnings þessa skal
skógarbónda og landeiganda tilkynnt um það með sannanlegum hætti. Uppsögn samkvæmt
þessari málsgrein skal tilkynnt fyrir 1. október og tekur gildi frá og með næstu áramótum. Ekki
skal endurgreiða samningsbundin framlög vegna uppsagnar samkvæmt þessari málsgrein.


10. gr.
Komi til verulegra vanefnda á samningi þessum og/eða skógræktaráætlun af hálfu Skógræktarinnar er skógarbónda heimilt að rifta samningnum að hluta til eða í heild.
Skógarbóndi og/eða landeigandi á ekki rétt á skaðabótum kjósi hann að rifta samningum.
Komi til verulegra vanefnda af hálfu skógarbónda á skyldum hans samkvæmt samningi
þessum og/eða ræktunaráætlun ber samningsaðilum að leita leiða til úrbóta. Til verulegra
vanefnda telst t.d. ef skógarbóndi skýrir rangt frá staðreyndum sem máli skipta eða vanefnir að
öðru leyti skyldur sínar ítrekað, eða í veigamiklum atriðum. Ef skógarbóndi grípur ekki til
úrbóta að áliðnum tímabundnum fresti sem Skógræktin setur honum, þá er Skógræktinni heimilt
að rifta samningnum og krefjast endurgreiðslu framlaga af skógarbónda. Um endurgreiðslu skal
þá fara skv. 1. mgr. 9. gr. þessa samnings. Áður en tekin er ákvörðun um riftun skal skógarbónda
gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri. Ákvörðun um riftun skal
rökstudd og má skjóta henni til ráðherra innan 30 daga frá því að hún var kynnt hlutaðeigandi.
Kæra frestar því að ákvörðun verði virk. Ef landeigandi er ekki jafnframt skógarbóndi skal
upplýsa landeiganda um slíkar vanefndir skógarbónda.


11. gr.
Skógarbóndi samkvæmt samningi þessum getur sótt um skráningu á
virðisaukaskattsskrá skv. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996 um skráningu virðisaukaskattskyldra
aðila. Ákvörðunarvald um skráningu er í höndum ríkisskattstjóra, sem leggur mat á það hvort
öll skilyrði til skráningar eru uppfyllt. Á grundvelli þeirrar skráningar getur skógarbóndi fengið
virðisaukaskatt, af aðföngum er eingöngu varða umsamda nytjaskógrækt, endurgreiddan í formi
innskatts með þeim takmörkunum sem leiða af lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og
reglugerð nr. 192/1993, um innskatt.
Verði breyting á notum, eignarheimild eða afnotarétti umsamins lands til
nytjaskógræktar, ber skógarbónda að tilkynna ríkisskattstjóra þar um áður en not breytast eða
þinglýst er eignarheimild eða leigusamningi. Skógarbónda sem hættir nytjaskógrækt, og
tilkynnir sig af þeim sökum út af virðisaukaskattsskrá eða er tekinn af grunnskrá á grundvelli
úrskurðar ríkisskattstjóra, ber að telja til skattskyldrar veltu verðmæti véla, tækja og annarra
rekstrarfjármuna.
Miða ber verðmæti (skattverð) við almennt gangverð á þeim tíma þegar starfsemi er
hætt. Innskatt vegna framkvæmda á fasteignum, sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 12. gr
reglugerðar nr. 192/1993, ber hins vegar að leiðrétta (bakfæra) í samræmi við ákvæði 14. gr.
sömu reglugerðar, ef fasteign er seld, leigð eða tekin til annarra nota þar sem ekki heimilast
innskattsfrádráttur eða minni innskattsfrádráttur. Leiðréttingarskyldan varir í 20 ár, talið frá og
með þeim mánuði þegar framkvæmd fór fram.
Grein þessi er háð breytingum á viðkomandi lögum og reglugerðum.


12. gr.
Um almannarétt, umgengni og útivist fer skv. IV kafla laga um náttúruvernd nr.
60/2013.
Ákvæði þessa samnings taka til alls skógræktarsvæðisins, sbr. 1. gr. Samningur þessi
gildir til 40 ára.
Að öðru leyti en greinir í samningi þessum fer um ræktun og meðferð skógarins á
landinu eftir skógræktarlögum og öðrum lögum eftir því sem við á.
Í samningi þessum og fylgiskjölum hans er fylgt leiðsögn skógarbónda varðandi ytri
mörk skógræktarlandsins og ekki er tekin afstaða til landamerkja jarðarinnar.


13. gr.
Segi skógarbóndi, sem ekki er jafnframt landeigandi, upp ábúð sinni gagnvart
landeiganda eða landeigandi segir skógarbónda upp ábúð vegna vanefnda ábúandans, sbr. 34.-
37. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, fer um uppgjör þeirra á milli (úttekt) vegna skógræktarinnar
skv. 2. mgr. 38. gr. og 5. mgr. 41. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004.


14. gr.
Af samningi þessum eru gerð þrjú samhljóða frumrit og heldur skógarbóndi einu. Afrit
af samningnum skal senda til viðkomandi sveitarfélags og til landeiganda, ef hann er ekki
jafnframt skógarbóndi.
Samningi þessum skal þinglýst sem kvöð á jörðina XXX er skuldbindur landeiganda og
þá sem síðar kunna að öðlast réttindi yfir jörðinni, þ.m.t. leigurétt. Skógræktin annast
þinglýsingu og greiðir kostnað sem af henni leiðir. Skógræktin sendir skógarbónda ljósrit af
þinglýstum samningi.
Rísi mál út af samningi þessum skal það rekið fyrir dómþingi viðkomandi héraðsdóms
nema samkomulag verði um annað.

 


___________________________________ _____________________________________
Staður dags. Staður dags.
___________________________________ _____________________________________
F.h. Skógræktarinnar Skógarbóndi skv. samningi þessum
_____________________________________
Skógarbóndi skv. samningi þessum
Vottar að réttri undirritun, dagsetningu og fjárræði: Vottar að réttri undirritun, dagsetningu og fjárræði:
___________________________________ _____________________________________
Nafn kt. Nafn kt.
___________________________________ _____________________________________
Nafn kt. Nafn kt.
Samþykki jarðareiganda, sé hann ekki jafnframt
skógarbóndi samkvæmt samningi þessum
_____________________________________
Staður dags.
_____________________________________
Eigandi jarðar
Vottar að réttri undirritun, dagsetningu og fjárræði:
_____________________________________
Nafn kt.
_____________________________________
Nafn kt.

bottom of page