Fræðsluefni
Afurðir íslenskra skóga eru ekki miklar enn sem komið er. Við þekkjum helst girðingarstaura, fínkurl, eldivið og jólatré. Einnig er orðið töluvert um að fólk tíni skógarsveppi til einkanota eða fyrir veitingahús. Á þessu sviði er því margt sem huga þarf að og leita leiða til þess að skila sem mestum arði af skóglendi framtíðarinnar.
lerkist.jpgGagnviði er jafnan skipt í fimm flokka:
Eldiviður
Um 50% af öllum viði sem til fellur í heiminum er eldiviður og er hann ýmist notaður til eldunar eða kyndingar. Mest er notkunin í þróunarlöndunum en um 80% íslensku þjóðarinnar nota jarðvarma til kyndingar svo lítill markaður er hérlendis fyrir eldivið. Birki er þó helsti arinviður þjóðarinnar og færst hefur í vöxt að veitingastaðir sem bjóða upp á pitsur kaupi íslenskt birki fyrir ofna sína.
Óflettur viður (staurar)
Stauranotkun hefur lengi verið umtalsverð, jafnt hérlendis sem erlendis. Má í því sambandi nefna síma- og raflínustaura, girðingarstaura og bryggjustólpa. Reynslan sýnir að íslenskir lerkistaurar reynast betur en innfluttir girðingarstaurar og þeir eru verðmætasta afurðin í fyrstu grisjun.
Flettur viður (borð og plankar)
Þetta er þýðingarmesta skógarafurðin og vegur þyngst í hagkvæmni nytjaskógræktar. Notkun borðviðar hefur heldur ekki dregist saman og ekki er útlit fyrir að það gerist í náinni framtíð. Um þessar mundir nota Íslendingar um 78 þúsund rúmmetra af borðviði á ári hverju.
Spændur viður (krossviður, spænir á plötu)
Einungis úrvalsviður er notaður í spón og fyrir hann fæst hærra verð en fyrir borðviðinn. Um er að ræða ýmist hnífskorinn spón sem límdur er á plötur í klæðningar, hurðir húsgögn o.fl., eða spón sem er flysjaður af bolnum og notaður í krossvið.
Iðnviður (viðarkurl)
Þessari afurð má skipta í beðmis- og spónaplötuvið sem er notaður í ódýrari pappír og spónaplötur, og iðnvið sem er notaður sem afoxari við framleiðslu á járni og járnblöndum. Fyrir þess afurð fæst fremur lágt verð en það kemur á móti að gæði viðarins þurfa ekki að vera mikil.
Helstu trjátegundir
Á undanförnum 100 árum hefur fjöldi trjátegunda og kvæma verið prófaður hér á landi, margar í skógrækt en fleiri í trjárækt. Hefur smám saman safnast ný reynsla af fjölda trjátegunda á Íslandi. Í leit að efnivið sem best hentar aðstæðum hér á landi, hafa verið prófuð mörg kvæmi af flestum tegundanna. Margar þeirra hafa þegar sannað tilverurétt sinn með sjálfsáningu.
lmbjörk (Betula pubescens).
Birkið er jafnvel talið hafa þraukað á Íslandi yfir ísaldirnar. Það er harðger tegund, sem þolir vel vindálag og getur lifað í magurri jörð. Við slíkar aðstæður vex það hægt og verður því ekki stórvaxið. Birkið getur með tímanum aukið frjósemi jarðvegs. Það hentar vel sem landnemi og getur búið í haginn fyrir aðrar vaxtarmeiri og verðmætari tegundir. Hæstu tré í birkiskógum Íslands ná sjaldnast meira en 12 m hæð. Stórvöxnustu birkiskógar landsins eru allir á því austanverðu, þ.e. frá Fnjóskadal austur um og suður til Bæjarstaðar. Vestlenska birkið er af einhverjum ástæðum kræklótt og fremur lágvaxið. Hins vegar nær Bæjarstaðabirki að sýna svipaða takta á Vesturlandi og í heimkynnum sínum. Viðamikil kvæmatilraun með íslenskt birki var sett af stað á átta stöðum á landinu árið 1998. Ein þessara tilrauna er í Múlaskógi, norðan Selgils í Húsafelli.
Hengibjörk (vörtubirki), (Betula pendula)
Ættuð frá N-Evrópu. Mun stórvaxnari tegund en ilmbjörkin og gerir meiri jarðvegskröfur. Haustið 1994 mældist hengibjörk í gömlu gróðrarstöðinni á Akureyri liðlega 12 metra há. Hún nær um 30 m hæð í heimkynnum sínum í Norður-Evrópu.
Alaskaösp, (Populus trichocarpa).
Upprunnin frá vesturströnd N-Ameríku. Hraðvaxta landnemategund, sem þarf fremur frjóan jarðveg til að vaxa vel. Hæsta ösp á Íslandi (að Múlakoti í Fljótshlíð) var 23,9 m haustið 2004, sjá nánar á eftirfarandi slóð: http://skogur.is/Apps/WebObjects/Skogur.woa/wa/dp?detail=1000768&id=1000027 Öspin nær mun meiri hæð í heimkynnum sínum. Mikilvæg tegund fyrir bæði timburskógrækt og skjólbeltarækt um land allt. Öspin hefur þann kost, að þegar hún er höggvin, sprettur úr grasi aragrúi rótarskota vítt um kring. Þarf því ekki að hafa mikið fyrir að endurnýja asparskóg. Nægir að grisja hann!
Gráelri, (Alnus incana).
Flutt hingað frá Norðurlöndum. Fyrst gróðursett í Múlakoti 1941. Landnemategund, sem miklar vonir eru bundnar við til landgræðslu vegna sambýlis elriróta við geislasveppi, sem binda nitur úr andrúmsloftinu. Hæsta tré: Í Mörkinni á Hallormsstað (gróðursett 1964), liðlega 11 m vorið 1994. Nær allt að 20 m hæð í Skandinavíu. Enn hefur ekki tekist að ná nógu góðum tökum á framleiðslu elriplantna í gróðrarstöðvum hérlendis. Þrífst einkar vel meðfram lækjum, en er líka duglegt að klæða nýfallnar skriður í heimkynnum sínum.
Sitkaelri, (Alnus sinuata).
Hávaxinn runni frá vesturströnd N-Ameríku. Hefur svipaða eiginleika og gráelrið en nær sjaldnast meira en 3 m hæð.
Ilmreynir, (Sorbus aucuparia).
Finnst hér og þar í skóglendi eða á ókleifum stöðum á Íslandi. Þó aldrei sem samfelld breiða, heldur sem stakstæð tré innan um birki. Reyniviður gerir álíka kröfur til sumarhita og íslenska birkið. Þetta er síðframvindu tegund, en birkið hins vegar landnemategund. Reyniviður er því afar skuggaþolinn og getur vaxið uppúr þéttu birkikjarri, sem jafnvel sauðkindin kemst illa um. Þessi eiginleiki kann að hafa bjargað tegundinni frá útrýmingu fyrir tíð gaddavírsins. Engin trjátegund (hérlend) er jafn vinsæll réttur hjá grasbítum. Ekki er gert ráð fyrir, að reyniviður verði gróðursettur í timburskóga á Vesturlandi. Þaðan af síður í landbótaskóga, enda þrífst tegundin illa á berangri. Hins vegar er hægt að nota sér skuggaþol hennar með eftirfarandi hætti: Reyniviður verði notaður í skjólbelti sem íbætur fyrir trjáplöntur, sem farið hafa forgörðum. Hann hentar trjáa best til íbóta sakir ótrúlegra hæfileika til að vaxa upp í gegnum litlar glufur, aðþrengdur af nábýli við önnur og stærri tré. Þannig yrði með tímanum töluvert af reyniviði í öllum skjóbeltum í landshlutanum, skógarþröstum til mikillar gleði. Þrestirnir eru sáðmenn guðs. Þeir munu sjá um að dreifa reyniviðnum um hina uppvaxandi skóga. Reyniviðurinn mun spretta upp úr flestum glufum í krónuþekjunni, en alltaf verður talsvert um slíkar glufur, enda langt því frá að allar gróðursettar plöntur lifi og verði tré.
Sitkagreni – sitkabastarður - (Picea sitchensis) – (Picea lutzii).
Stórvaxin tegund, sem nær upp undir 100 m hæð í heimahögum sínum og þarf mikið rými. Sitkagrenitré í Elliðaárdal (gróðursett 1937 og 1944) voru orðin 20 m haustið 2001. Megnið af sitkagreni á Íslandi er upprunnið frá svæðum í Alaska, en þar er meiri eða minni kynblöndun sitkagrenis og hvítgrenis regla fremur en undantekning. Sitkagrenið gerir talsverðar kröfur til frjósemi jarðvegs. Á stöðum þar sem úrkoma er næg, vex það best allra barrtrjáa ef jarðvegsskilyrði eru hagstæð. Sitkabastarður er fremur notaður norðanlands en sunnan og annars staðar þar sem úrkoma er takmarkandi fyrir sitkagreni. Hann er einnig krónuminni.. Sitkalúsin hefur gert nokkurn skaða sum ár, en drepur sjaldan tréð. Hún getur hins vegar dregið úr vexti.
Hvítgreni (Picea glauca).
Vex í Kanada frá austur- til vesturstrandar. Á tiltölulega mjóu belti meðfram vesturströnd Kanada og Alaska leysir sitkagrenið hvítgrenið af hólmi og blandast því einnig. Á Hallormsstað var 43 ára tré orðið 11,3 m haustið 1994. Getur orðið allt að 35 m hátt í heimkynnum sínum. Þessi tegund hefur tiltölulega mjóa krónu. Í innsveitum á norðaustanverðu landinu er úrkoma víðast hvar of lítil fyrir sitkagrenið. Þar kjósa menn fremur að nota hvítgreni til skógræktar. Hugsanlega gæti tegundin hentað í þurrustu dalskorum á Vesturlandi. Gerir heldur minni kröfur til jarðvegsfrjósemi og -raka heldur en sitkagreni.
Blágreni (Picea engelmannii).
Háfjallatré, sem gerir jafnvel minni hitakröfur en birkið. Þrífst vel um allt land, en mest notað um norðanvert landið. Vinsælt sem jólatré. Blágrenið er með mjóa krónu, og hentar því vel í litla garða í þéttbýli. Þarf fremur frjósaman jarðveg. Hæsta blágrenitré landsins í Mörkinni á Hallormsstað var orðið yfir sautján metrar vorið 1994. Nær mun meiri hæð í heimkynnum sínum, sem eru í fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku. Gerir svipaðar kröfur til jarðvegs og hvítgrenið.
Rauðgreni (Picea abies).
Ættað frá norðurhluta Evrasíu. Flutt hingað til lands frá norðurhluta Noregs. Þrífst aðeins vel á skjólgóðum stöðum í innsveitum, þar sem jarðvegur er mjög frjór. Rauðgreni er skuggaþolið. Eftirsótt jólatré, ekki síst vegna ilmsins og í seinni tíð eingöngu ræktað til jólatrjáaframleiðslu. Yfirleitt með fremur mjóa krónu. Hæsta rauðgreni landsins (á Hallormsstað) var orðið yfir 16,7 m vorið 1998.
Lindifura, (Pinus cembra).
Ættuð frá Síberíu, en er einnig á takmörkuðu útbreiðslusvæði í Mið-Evrópu. Hefur þrifist afbragðsvel, t.d. í Hallormsstaðaskógi og á Þingvöllum. Er svokölluð fimm-nála-fura, þ.e. jafnan eru fimm nálar í knippi, en ekki tvær til þrjár eins og t.d. hjá skógarfuru og stafafuru. Er afar seinvaxin í æsku en herðir svo á vextinum. Lindifurutrtrén í Mörkinni á Hallormsstað eru að flestra dómi með fegurstu trjám í öllum skóginum. Krónan er nokkuð jafn breið frá jörðu og uppundir topp og þétt með lifandi greinum alveg niður að jörð, þótt hún vaxi innan um birki. Barrið er dökkgrænt og nálarnar langar. Síberísk kvæmi geta náð allt að 40 m hæð í heimkynnum sínum, en Mið-Evrópukvæmið er mun smávaxnara. Í Síberíu hafa verið reist heilsuhæli í lindifuruskógum, þar sem loftið er þar talið heilnæmt fyrir brjóstveikt fólk. Fræin eru risastórar og hinar gómsætustu hnetur.
Síberíulerki (Larix sibirica).
Útbreiðslusvæði frá Arkangelskhéraði í N-Rússlandi og langt austur í Síberíu. Oft eru kvæmi ættuð vestan Úralfjalla flokkuð sem sérstök tegund og þá kölluð “rússalerki”. Var gróðursett fyrst hér á landi 1922. Hæsta lerkitré á Íslandi um aldamótin síðustu var síberíulerki í Guðrúnarlundi í Hallormsstaðaskógi 21,0 m. Í heimkynnum sínum nær lerki gjarnan 30-40 m hæð. Hin seinni árin hafa alls kyns sveppapestir ógnað tilverurétti tegundarinnar sums staðar á landinu. Einkum á þetta við um hin síberísku kvæmi, meðan þau sem ættuð eru vestast af útbreiðslusvæðinu hafa reynst betur. Lerkið vex mun betur en birki á þurru og mögru landi inn til landsins, einnig hér vestanlands. Ætti það að geta myndað skjól fyrir aðrar tegundir, jafnframt því sem það bætir jarðveg á rýru landi ótrúlega fljótt. Síberíulerki er því mikilvæg tegund fyrir timburskógrækt og landbótaskógrækt í innsveitum vestanlands, en rétt kvæmaval afarmikilvægt. Þrífst illa í deiglendi. Ef rétt reynist, að loftslag muni fara hlýnandi á næstu áratugum og þá einkum á veturna, geta skilyrði versnað til ræktunar tegundarinnar. Tilraunir eru hafnar hjá Skógrækt ríkisins með notkun tegundablendinga í stað síberíulerkis.
Fjallaþinur (Abies lasiocarpa).
Ættaður úr vestanverðri N-Ameríku. Háfjallategund með granna krónu. Þrífst vel víðast hvar á landinu. Sérlega skuggaþolinn. Eftirsóttur í jólatré. Viðurinn þykir hins vegar lítils virði. Helst ræktaður vegna jólatrjánna, sem eru ilmrík og standa vel. Hæsta tré þessarar tegundar hér á landi var gróðursett 1909 í Mörkinni á Hallormssstað – 15,9 m haustið 1994. Sverast allra trjáa á Íslandi er fjallaþinur á sama stað 65 cm í þvermál vorið 1991. Nær 20-30 m hæð í heimkynnum sínum. Hentar aðeins sem skrauttré eða í jólatrjáarækt.
Douglasgreni (Pseudotsuga menziesii).
Á Hallormsstað er til afar stæðilegt stóð af douglasgreni sem sennilega er frá Mt. Rainier í Washingtonfylki. Var hæsta tréð þar 16.9 m vorið 1999. Á Mógilsá á Kjalarnesi eru mjög efnileg tré þessarar tegundar af fræi frá Kaupangi í Sognfirði en upprunnin frá nyrsta hluta úbreiðslusvæðisins í N-Ameríku. Mikil vinna er eftir við frekari prófanir á fleiri kvæmum þessarar tegundar, áður en hún getur orðið vænleg til timburframleiðslu hérlendis. Enda er mikill munur á kvæmum á víðáttumiklu úbreiðslusvæði douglasgrenis í Norður-Ameríku. Innan fárra ára kemur í ljós, hvort kvæmið frá Kaupangi henti þokkalega á Vesturlandi. Þá gæti tegundin orðið okkur mikilvæg. Fáar eða engar tegundir barrskógabeltisins gefa jafneftirsótt timbur og douglasgrenið, sem kallast í byggingariðnaði “Oregon pine”. Þarf fremur frjósaman jarðveg eins og oftast er að finna við brekkurætur eða neðst í fjallshlíðum
Tilgangur Ein heild er að vekja athygli á lesblindu og áhrifum hennar á einstaklinga í skóla og samfélaginu. Markmiðið er að fólk í okkar samfélagi sé meira meðvitað um lesblindu og hvað er hægt að gera fyrir þá og með þeim, heima fyrir sem og í skólum.
Afskornar trjágreinar og sprotar sem
skreytingaefni (Steinar Björgvinsson)
Fertilization in Icelandic Afforestation: Evaluation of Results
SAMFÉLAGSMIÐLAR
Taktu þátt í umræðunni